Norðmenn fikra sig út úr svartnættinu

Flestar tölur um faraldurinn hafa síðasta mánuðinn verið á uppleið í Noregi. Smitfjöldi. Innlagnir á sjúkrahús. Innlagnir á gjörgæslu. Eftir dumbungslegar vikur hvað þetta varðar er loks farið að birta eilítið til. Pestin mun þó líklega geisa til maíloka.

Hjukrunarfræðingur sinnir COVID-veikum sjúklingi á spítala í Ósló.
Hjukrunarfræðingur sinnir COVID-veikum sjúklingi á spítala í Ósló.
Auglýsing

Síðustu vikur hafa ekki beint aukið Norðmönnum bjartsýni í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Það er auðvelt að benda fingri á sökudólginn: Hið breska afbrigði kórónuveirunnar. Það greindist fyrst í Noregi í desember en hefur síðan þá orðið það fyrirferðamesta í raðgreiningum á veirunni og vel yfir 70 prósent allra sem greinst hafa í mars eru smitaðir af afbrigðinu sem Bretar kenna við Kent en flestir aðrir einfaldlega við Bretland. Það ber orðið ábyrgð á meirihluta allra dauðsfalla vegna COVID-19 í Bretlandi frá upphafi faraldursins og er það langútbreiddasta í allri Evrópu.

Þetta er ekki ný kórónuveira. Heldur stökkbreytt kórónuveira. Og meira að segja hefur breska afbrigðið stökkbreyst síðan það uppgötvaðist fyrst. Nú er talað um stökkbreytt stökkbreytt afbrigði – svona til að flækja málin aðeins meira.

Auglýsing

Þetta kemur hins vegar ekkert á óvart frá faraldsfræðilegu sjónarhorni í það minnsta. Í upphafi faraldursins voru allar veirurnar sem voru að sýkja fólk af sjúkdómi sem fékk svo nafnið COVID-19 mjög svipaðar. En með hverju smiti eru líkur á stökkbreytingum. Og þó að flestar þessar stökkbreytingar skipti litlu eða engu hvað varðar breytt einkenni sjúkdómsins gerir hinn gríðarlegi fjöldi smita það að verkum að veiran, SARS-CoV-2, hefur í einhverjum tilvikum breyst til hins verra (fyrir okkur) og náð að auka færni sína til að smita fólk og jafnvel valda alvarlegri einkennum. Um þetta allt saman getur þú lesið hér, í nýlegu viðtali Kjarnans við Arnar Pálsson erfðafræðing.

Og eitt þessara stökkbrigða, fyrst greint í Bretlandi í nóvember, hefur náð að dreifa sér til yfir 130 landa. Fleiri bráðsmitandi stökkbrigði eru á kreiki en hér skal fjallað um hið breska og þá helst óskundann sem það hefur gert í nágrannaríki okkar Noregi.

Meira smitandi og hættulegra

„Þetta er alvarlegt,“ sagði Line Vold, deildarstjóri hjá Lýðheilsustofnun Noregs fyrir nokkrum dögum. Hún var að tala um veiruafbrigðið breska sem tölur sýna nú svart á hvítu að er mun meira smitandi en þau afbrigði sem við höfum glímt við hingað til. Það getur því breiðst út um samfélag á skemmri tími en við höfum hingað til átt að venjast.

En það er ekki það eina sem Vold og félagar hafa komist að.

Þeir sem greinast með hið breska afbrigði kórónuveirunnar eru í 2,6 sinnum meiri hættu á að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús en þeir sem sýktir eru af öðrum afbrigðum veirunnar. Þessi aukna áhætta á við um alla aldurshópa 20 ára og eldri. Áhættan er einnig meiri meðal barna en af öðrum afbrigðum þó að hún sé minni en hjá ungmennum og fullorðnum.

Þetta þýðir einfaldlega að veiruafbrigðið veldur alvarlegri veikindum en önnur.

Rúmlega fjörutíu manns voru lagðir inn á gjörgæsludeildir í Noregi í síðustu viku. Mynd: EPA

Á síðustu viku hafa 43 verið lagðir inn á gjörgæsludeildir norskra sjúkrahúsa með COVID-19. Það er mesti fjöldi á einni viku síðan í lok mars í fyrra. Fyrir nokkurn veginn sléttu ári síðan. Fjöldi innlagna á gjörgæslu hefur aukist fjórar vikur í röð.

Frá upphafi faraldursins hafa um 90.500 manns greinst með sjúkdóminn í Noregi. Um 650 hafa dáið.

Hingað til hefur yngra fólk verið í hvað minnstri áhættu á því að veikjast af COVID-19. Sjúkdómurinn lagðist langverst á fólk 70 ára og eldra. En nú hefur norska Lýðheilsustofnunin komist að því að meiri líkur eru orðnar á því að fólk yngra en fertugt veikist alvarlega. Allt er það breska afbrigðinu að kenna.

Hópsmit hafa komið upp í grunnskólum á nokkrum stöðum í Noregi og það er líka nýtt þó að taka verði staðfestum smittölum meðal barna með ákveðnum fyrirvara þar sem þau voru lítið sem ekkert skimuð í fyrstu bylgju faraldursins. Samanburðurinn er því lítill. En vísbendingar eru þó til staðar.

Mun reyna á þolmörk sjúkrahúsanna

Eftir að nýja afbrigðið uppgötvaðist í Bretlandi ákvað Noregur eins og fleiri lönd að stöðva beint flug milli landanna í þeirri von að halda mætti þessari stökkbreyttu veiru úti. En allt kom fyrir ekki.

Líkt og í Noregi ganga sóttvarnaaðgerðir yfirvalda út á það að verja heilbrigðiskerfið frá hruni. Það gafst vel í fyrri bylgjum hjá okkur og Norðmönnum en deildarstjórinn Vold óttast að sú breska geti átt eftir að reyna rækilega á þolmörk sjúkrahúsanna.

Til að verjast veirunni nú þarf því harðari aðgerðir. Það duga engin vettlingatök, eins og Runólfur Ólafsson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi dagsins.

Undir orð Vold hafa fleiri sérfræðingar í Noregi tekið, m.a. Espen Nakstad, aðstoðar landlæknir. „Ef innlagnir halda áfram að aukast þá verður þetta mjög erfið staða.“

Hann minnir á að einkennalausir smiti og geti jafnvel smitað meira en þeir sem þegar eru komnir með fyrstu einkenni. Þetta er nokkuð óvenjulegt þegar veirur eru annars vegar. En við ættum að vera farin að vita það núna að nýja kórónuveiran, sem er nú kannski ekkert ný lengur, er ólíkindatól. Nakstad segir að þar sem veiran sé meira smitandi en áður fái fólk meira magn af henni inn í líkamann er það smitast. Það eitt og sér geti orsakað alvarlegri veikindi.

Bólusetning gengur hægt í Noregi eins og á Íslandi og víðast í Evrópu.  Mynd: EPA

En ljóstíran handan ganganna er til staðar þó að það þurfi kannski að píra augun til að sjá hana. Því ólíkt því sem var í hápunkti faraldursins fyrir nákvæmlega ári síðan er bólusetning við COVID-19 ekki lengur fjarlægur draumur og óskhyggja. Bóluefni er til og bólusetningarherferðir eru hafnar þó að flestir, fyrir kannski utan Ísraela, Bandaríkjamenn og Breta, vildu gjarnan að hún gengi mun hraðar fyrir sig.

En talandi um Ísrael, Bandaríkin og Bretland. Þar hefur dregið verulega og nokkuð hratt úr smitfjölda dag frá degi og því blasir augljós staðreynd við: Bóluefnin virka.

Líkt og hér eru Norðmenn orðnir óþreyjufullir að fá bólusetningu. Tíundi hver þeirra er þó kominn með að minnsta kosti fyrri sprautuna. Nýjasta spá norsku Lýðheilsustofnunarinnar um þróun faraldursins er þrátt fyrir allt ekki svo dökk lengur. Að minnsta kosti ekki miðað við í síðustu viku þegar hún var kolbikasvört. Samkvæmt spánni eru enn tveir mánuðir í að hátindi faraldursins verði náð.

Auglýsing

Og í gær sást vonarglæta í smittölum vikunnar: Þær voru lægri og benda því, að mati Lýðheilsustofnunarinnar, til þess að hægt hafi á útbreiðslunni. Færri börn hafa t.d. smitast síðustu daga en vikurnar á undan. Smitin almennt verða þó líklega á svipuðu bili áfram en ekki í stöðugum veldisvexti. Spá um framhaldið er gerð út frá ýmsum forsendum. Að áfram verði hörðum aðgerðum beitt innanlands og að bólusetning sé í ákveðnum og góðum takti. Það síðarnefnda er auðvitað ekki fullvíst. Reynslan hefur sýnt okkur að ekki er hægt að stóla á dreifingaráætlanir lyfjafyrirtækjanna. Í gær – svo dæmi sé tekið – bárust fréttir af því að bóluefni Jansen (sem er í eigu Johnson & Johnson) verði ekki afgreitt í jafn miklum mæli næstu vikur og til stóð. Svipaðar fréttir hafa fyrr í vetur borist frá öðrum framleiðendum.

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning. Í janúar fagnaði Haraldur 30 árum í kóngastólnum. Mynd: EPA

Páskarnir verða óvenjulegir í ár – eins og í fyrra reyndar. Hér á Íslandi biðja yfirvöld fólk að búa sér til „páskakúlur“ og gæta þess að umgangast ekki marga.

Í Noregi er staða svipuð. Yfirvöld biðja fólk að halda ekki fjölmennar veislur. Þau óttast líka umferðaröngþveiti á vegum. Norðmönnum líður mörgum hvergi betur en í sumarhúsinu sínu. Og þangað munu þeir líklega streyma hvað sem tautar og raular.

Enda hefur konunglegt fordæmi fyrir slíku líka verið gefið. Sonja drottning og Haraldur konungur ætla að dvelja í sinni „hyttu“ í Jötunheimum um páskana. Höllin tilkynnti þetta í dag og bætti við að með ferðalaginu væri ekki verið að brjóta neinar sóttvarnareglur. Í landinu gilda tíu manna fjöldatakmörk, rétt eins og á Íslandi nú, og ætla konungshjónin því að fækka í fylgdarliði sínu en munu eftir sem áður njóta aðstoðar starfsfólks hallarinnar í fríinu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar