Á milli umræðna um fjárlagafrumvarp ársins 2022 á Alþingi ákvað meirihluta fjárlaganefndar að gera tillögu um að hækka framlag til Skattsins um 50 milljónir króna til að bæta stofnuninni það tap sem hún varð fyrir þegar ársreikningaskrá var gerð gjaldfrjáls.
Kjarninn greindi frá því í nóvember að áætlaður tekjumissir stofnunarinnar vegna þessa sé um 54,5 milljónir króna á ári. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar segir að þá eigi hins vegar eftir að taka tillit til þess sparnaðar sem myndast vegna þess að ekki þarf lengur að ljósrita ársreikninga. „Tekjur Skattsins árið 2019 skiptust í 49 m.kr. vegna sölu ársreikninga til miðlara og 5 m.kr. vegna ljósritaðra ársreikninga. Tekjurnar voru því að mestu vegna sölu á ársreikningum til miðlara og miðaðist við verð fyrir hvern ársreikning. Ekki var um beina skönnun að ræða heldur fengu miðlarar aðgengi að skránni og voru rukkaðir fyrir hvern ársreikning sem þeir nálguðust. Tekjurnar af þessu voru nýttar til að viðhalda og sinna nauðsynlegu eftirliti með ársreikningaskránni sjálfri sem í raun er hluti af þjónustunni.“
Frá byrjun árs 2021 hafa ársreikningar félaga svo verið aðgengilegir án endurgjalds á heimasíðu Skattsins. Hægt er að nálgast alla ársreikninga í fyrirtækjaskrá Skattsins með því að smella á körfu við hliðina á ársreikningi valins félags. Sú breyting hefur leitt til þess að Creditinfo, stærsta einkafyrirtækið á þeim markaði sem seldi upplýsingar úr ársreikningaskrá, hætti að rukka fyrir skönnuð frumrit af ársreikningum í febrúar 2021.
Töldu gjaldfrjálsan aðgang kippa fótunum undan rekstrinum
Frumvarp ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra var ekki það fyrsta sem lagt hefur verið fram í þeim tilgangi að veita gjaldfrjálst aðgengi að ársreikningum. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, flutti frumvarp um afnám gjaldtöku fyrir aðgang að ársreikningum í september árið 2017 og svo aftur í desember sama ár. Það frumvarp fór í fyrstu umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd sem kallaði eftir umsögnum um málið, en rataði svo aldrei þaðan.
Creditinfo mótmælti þá frumvarpinu í umsögn og sagði að upplýsingar úr ársreikningum væru fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu. Því væri eðlilegt að fólk og fyrirtæki greiði fyrir þær í stað þess að „almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstur skránna.“
Embætti ríkisskattstjóra, sem nú er hluti af Skattinum, skrifaði einnig umsögn um frumvarpið og sagði það kippa fótum undan rekstri þess. Enn fremur líkti embættið afnámi gjaldtökunnar við það að gera aðgang að söfnum landsins ókeypis.
Ríkisskattstjóri sagði í umsögn sinni að ef fyrirhugaðar lagabreytingar næðu fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“