Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna skýrslu, svo nefnda grænbók, um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.
Þetta kemur fram í vef Stjórnarráðsins.
Starfshópinn skipa Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur, sem er formaður, Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Sigríður Mogensen sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. Erla Sigríður Gestsdóttir og Magnús Dige Baldursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu munu starfa með starfshópnum.
„Skýrslunni er ætlað að draga fram staðreyndir um stöðu mála á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála og setja fram á aðgengilegu formi til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning.
Starfshópnum er með vinnu sinni meðal annars falið að gera grein fyrir orkuþörf, stöðu á flutningskerfi raforku og orkumarkaði á Íslandi með tilliti til loftslagsmarkmiða stjórnvalda með orkuskiptum. Þá hefur starfshópurinn það hlutverk að gera grein fyrir núverandi stöðu mála varðandi framboð og eftirspurn raforku,“ segir í tilkynningunni.
„Mikilvægt að fá yfirsýn og tölulegar upplýsingar um stöðu mála“
Fram kemur hjá ráðuneytinu að starfshópurinn muni hafa reglubundið samráð við lykilaðila, sem séu Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Samorka, Skipulagsstofnun, Orkuklasinn og Grænvangur. Þá muni hópurinn einnig viðhafa reglubundið samráð við sérstakan samráðshóp sem skipaður sé fulltrúum ráðuneytisins, forstöðumönnum viðkomandi stofnanna og formanni verkefnastjórnar rammaáætlunar.
„Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum sem varða meðal annars orkuskiptin og hvernig við náum metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er afar mikilvægt að fá yfirsýn og tölulegar upplýsingar um stöðu mála, meðal annars orkuþörfina, hvernig hægt er að nýta flutningskerfi okkar með sem bestum hætti og hvar úrbóta er þörf. Grænbókin sem starfshópnum hefur verið falið að vinna er mikilvægur grunnur til að byggja á frekari ákvarðanir og aðgerðir til að ná þessum markmiðum,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni.
Starfshópurinn á að skila skýrslu sinni og tillögum til ráðherra fyrir 1. mars.