Þónokkur félagasamtök og einstaklingar hafa sent frá sér yfirlýsingu, þar sem skorað er á Þorstein Gunnarsson, nýskipaðan formann kærunefndar útlendingamála, um að víkja úr embættinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skipaði Þorstein í embættið undir lok síðasta mánaðar og skorað er á hana um að birta öll gögn varðandi skipunarferlið.
Í yfirlýsingunni, sem send er út í nafni Samtakanna ‘78, No Borders, Solaris, Röskvu, Félagsins Íslands-Palestína og Félags hernaðarandstæðinga auk fleiri félaga og einstaklinga, segir að sú ákvörðun að skipa staðgengil forstjóra Útlendingastofnunar sem formann kærunefndarinnar, sem hafi umsjónar- og eftirlitshlutverk gagnvart þeirri sömu stofnun, sé til þess fallið að „draga verulega úr trúverðugleika og hlutleysi nefndarinnar“ gagnvart Útlendingastofnun.
„Samkvæmt lögum er hlutverk kærunefndar útlendingamála að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem á að úrskurða um mál sem kærð eru til hennar, en eðli málsins samkvæmt eru það fyrst og fremst úrskurðir frá ÚTL. Helsta hlutverk Þorsteins í nýju starfi sem formaður kærunefndar er því að rannsaka og úrskurða um mál stofnunar sem hann hefur sjálfur stýrt um árabil, sem samræmist varla hlutverki hennar sem “sjálfstæð” stjórnsýslunefnd,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Segja Þorstein hafa rekið heiftúðuga harðlínustefnu
Í yfirlýsingunni er afgreiðsla ýmissa mála hjá Útlendingastofnun á undanförnum misserum og aðkoma Þorsteins að þeim gagnrýnd harðlega. Segir meðal annars að hinsegin fólk hafi undanfarin misseri þurft að berjast mikið fyrir því að fá hinseginleika sinn viðurkenndan af Útlendingastofnun. Einnig er stefna Útlendingastofnunar í málefnum barna og þolenda mansals sögð hafa verið „heiftúðug“ og „harðlínustefna“.
Þá er vísað til þess að nýlega var þjónustusvipting Útlendingastofnunar á nærri tuttugu flóttamönnum úrskurðuð ólögleg af hálfu kærunefndar útlendingamála, en Þorsteinn og fleiri talsmenn Útlendingastofnunar höfðu stigið fram í fjölmiðlum og sagt gjörðina standast lög.
„Með framferði sínu gerði ÚTL mennina húsnæðislausa og án framfærslu í rúman mánuð, suma lengur en það, auk þess sem þeim var neitað um heilbrigðisþjónustu. Kærunefnd Útlendingamála úrskurðaði að ákvörðun ÚTL hafi verið ólögmæt, en hvorki Þorsteinn né yfirmaður hans, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, gengust við ábyrgð á þessum ólöglegu aðgerðum né báðust afsökunar,“ segir í yfirlýsingunni í dag.
Umboðsmaður Alþingis hvattur til að ráðast í frumkvæðisathugun
Auk þess að skora á Þorstein um að segja af sér og dómsmálaráðherra um að birta öll gögn um skipunarferlið, skora þau sem standa að yfirlýsingunni skora á Umboðsmann Alþingis um að ráðast í frumkvæðisathugun á umræddri skipun með sérstaka áherslu á traustssjónarmið.
Í yfirlýsingunni segir að þegar litið sé til álita Umboðsmanns Alþingis og hæfisreglna stjórnsýslulaga megi sjá að traustssjónarmið spili stóran þátt í mati á hæfi nefndarmanna.
„Þau sjónarmið ættu í raun að gera Þorstein vanhæfan þar sem það eitt og sér að hafa komið beint úr því starfi sem hann hefur sinnt öll þessi ár er alvarlegur annmarki hvað varðar traustssjónarmið,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir að skipun Þorsteins í embættið sé til þess fallin að „grafa undan grunnstoðum lýðræðislegs réttarríkis og réttarvitund þegna þess“ auk þess sem búast megi við því að sá jaðarsetti hópur sem flóttafólk er muni halda áfram að finna fyrir „harðri stefnu Þorsteins“ sem verði „nær allsráðandi í málaflokknum“.
Þau sem standa að yfirlýsingunni eru eftirtalin:
Anna Lára Steindal, Elinóra Guðmundsdóttir, Félag hernaðarandstæðinga, Félagið Ísland Palestína, Hallgrímur Helgason rithöfundur, Ísold Uggadóttir kvikmyndagerðarkona, No Borders Iceland, Norðdahl lögmannsstofa, Refugees in Iceland, Réttur barna á flótta, Röskva - samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, Samtökin ‘78, Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Stelpur Rokka, Trans Ísland og Q - félag hinsegin stúdenta.