Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) fær 56 af þeim 59 þingsætum sem Skotland fær í breska þinginu í þingkosningum í Bretlandi í maí, samkvæmt nýrri könnun Ashcroft lávarður hefur látið gera.
Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar myndu svo gott sem þurrkast út í Skotlandi og fylgisaukning við Verkamannaflokkinn annars staðar í landinu núllast út verði þetta niðurstaðan.
Samkvæmt könnuninni myndu Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn fá jafnmörg sæti í þinginu alls, 272 sæti hvor. Verkamannaflokkurinn fékk 258 sæti í kosningunum árið 2010, og íhaldsmenn fengu 306 sæti.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, verður í lykilstöðu eftir kosningar gangi kannanir eftir.
Íhaldsflokkurinn er mjög óvinsæll í Skotlandi og hefur til að mynda aðeins einn þingmann nú. Því reynir Verkamannaflokkurinn nú að koma þeim skilaboðum á framfæri í Skotlandi að með því að kjósa Skoska þjóðarflokkinn hjálpi fólk í raun Íhaldsflokknum að halda völdum og haldi David Cameron í forsætisráðuneytinu. Til að koma í veg fyrir það verði að kjósa Verkamannaflokkinn, sem sé eini flokkurinn sem sé nógu stór til að mynda ríkisstjórn utan Íhaldsflokksins.
Hins vegar er allt útlit fyrir að Skoski þjóðarflokkurinn gæti einmitt hjálpað Verkamannaflokknum að mynda ríkisstjórn ef stóru flokkarnir tveir verða svipað stórir. Flokkurinn verður í lykilstöðu ef engum einum flokki tekst að fá meirihluta, og leiðtogi SNP, Nicola Sturgeon, hefur sagt að hún muni ekki styðja Íhaldsflokkinn.
Ashcroft gerði könnunina í átta kjördæmum af þeim 59 sem eru í Skotlandi. Kosningastjóri SNP, Angus Robertson, segir að kannanir af þessu tagi séu mjög hvetjandi, en ekkert þingsæti sé enn öruggt. „Það mikilvægasta í þessum niðurstöðum er að þær staðfesta að fylgisaukningin við SNP er alveg jafn mikil á svæðum í Skotlandi sem kusu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni og á þeim sem sögðu já,“ segir Robertson.
Guardian tekur saman allar kannanir og setur saman í gagnagrunn, og með því að bæta nýjustu könnun Ashcroft lávarðar í gagnagrunninn eru niðurstöðurnar ekki alveg eins góðar fyrir Skoska þjóðarflokkinn, en það munar þó ekki miklu. Samkvæmt Guardian myndi flokkurinn fá 52 af 59 sætum.