Skoski þjóðarflokkurinn SNP fær öll 59 sæti Skotlands í breska þinginu ef marka má nýjustu skoðanakannanir nú þegar aðeins rúm vika er til kosninga. Könnunin, sem skoska sjónvarpsstöðin STV lét gera, er sú síðasta sem gerð verður fyrir sjónvarpsstöðina fyrir kosningar.
Samkvæmt könnuninni styðja 54 prósent kjósenda SNP, og stuðningur við Verkamannaflokkinn hefur minnkað niður í 20 prósent. Skotland hefur lengi verið vígi Verkamannaflokksins, en svo er aldeilis ekki lengur. Miðað við þessa könnun bætir Íhaldsflokkurinn við sig fimm prósentum, en aukning flokksins eru líka tíðindi þar sem hann hefur löngum verið mjög óvinsæll í Skotlandi. Frjálslyndir demókratar bæta við sig einu prósenti og fá fimm prósenta stuðning og græningjar tapa tveimur prósentum og fá tvö prósent. UKIP, breski sjálfstæðisflokkurinn, fær eitt prósent.
Samkvæmt könnuninni munu um 80 prósent kjósenda í Skotlandi mæta á kjörstað, það er sextán prósentum meira en í síðustu þingkosningum árið 2010, en fimm prósentum minna en kjörsóknin var í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota síðastliðið haust.
„Þessar kannanir eru frábærar og yndislegt lesefni fyrir SNP en þær eru samt bara kannanir. Það eru atkvæði og kjörkassar sem telja og ég og SNP munum halda áfram að taka engu sem sjálfsögðum hlut og berjast fyrir hverju atkvæði,“ segir Nicola Sturgeon leiðtogi flokksins. „Okkar skilaboð eru einföld - ef Skotland vill að rödd þess heyrist hærra í Westminster en nokkru sinni fyrr, og að sú rödd verði notuð til framsækinna stjórnmála eins og að binda endi á niðurskurð, þá því fleiri sæti sem SNP vinnur því hærra mun heyrast í þeirri rödd.“
Jim Murphy, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi, segir við STV og Sky að könnunin sé augljóslega slæm fyrir flokkinn. Hún væri mjög góð fyrir SNP en enn betri fyrir David Cameron og Íhaldsflokkinn. „David Cameron getur ekki sigrað Verkamannaflokkinn í Skotlandi, svo einhver annar verður að gera það fyrir hann. Ef þessi könnun gengur eftir mun David Cameron opna kampavínið vegna þess að hann nær að halda völdum. Líkur eru á því að hann haldi áfram að vera forsætisráðherra, ekki af því að Skotland fór á kjörstað og kaus íhaldsmenn, heldur af því að Skotland kaus gegn Verkamannaflokknum fyrir SNP og minnkaði líkur Verkamannaflokksins á því að mynda ríkisstjórn.“