Tveir menn, sem taldir eru hafa framið skotárás í Kaupmannahöfn í dag, ganga enn lausir. Samkvæmt vef Berlinske eru þeir dökkklæddir, tala dönsku og lögðu á flótta á dökkri Volkswagen Polo bifreið. Skotum var hleypt af við menningarhúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn fyrir skemmstu. Þrír lögreglumenn og einn borgari eru slasaðir, samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla. Ekki liggur fyrir hversu alvarlega.
Gríðarlega umfangsmikil leit stendur nú yfir af mönnunum í Kaupmannahöfn. Talið er að þeir hafi skotið að minnsta kosti 40 skotum úr sjálfvirkum rifflum.
Samkvæmt frétt Berlinske var árásinni mögulega beint að sænska skopteiknaranum Lars Vilks, sem hefur teiknað skopmyndir af Múhammeð spámanni, en í menningarhúsinu fer í dag fram ráðstefna sem fjallar meðal annars um tjáningarfrelsi. Vilks er ómeiddur.
Umsvifamiklar lögregluaðgerðir standa nú yfir í Kaupmannahöfn vegna skotárásarinnar.
Samkvæmt fréttum Jyllands-Posten fóru ódæðismennirnir í gegnum málmleitartæki áður en þeir hófu skothríðina. Þeir komust ekki að Vilks áður en þeir flýðu út úr ráðstefnusalnum. Ekstra Bladet segir að danska lögreglan líti á árásina sem hryðjuverk.