Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mun á næstu vikum færa skrifstofu sína frá einum bæ í annan og bjóða íbúum á hverjum stað til spjalls. Einnig eru fyrirtækjaheimsóknir hluti af dagskránni og íbúafundir fyrirhugaðir á einhverjum staðanna. Ferðalagið hófst í Snæfellsbæ þann 18. ágúst og lýkur, í þessari fyrstu lotu, á Akranesi í lok október. Þá mun ráðherra hafa starfað á tíu stöðum á landinu. „Það var ótrúlega kraftmikið að sitja á Hellissandi með Snæfellsjökul útum gluggann og sinna þaðan starfi mínu á dögunum," segir Áslaug. „Ég fékk skrifstofu á Röstinni sem er samvinnurými í Snæfellsbæ og fékk einstakt tækifæri til að kynnast samfélaginu á fjölbreyttan máta og ræða málefni ráðuneytisins.“
Ráðuneytið áætlar að kostnaður vegna verkefnisins á þessu ári verði rúmlega ein milljón króna. Gisting er dýrasti kostnaðarliðurinn, um 437 þúsund krónur, og kostnaður við auglýsingar í bæjar- og á samfélagsmiðlum kemur þar á eftir en hann er áætlaður um 350 þúsund, án virðisauka. Flutningur skrifstofunnar til Ísafjarðar verður dýrastur, áætlaður um 184 þúsund krónur. Þar á eftir fylgja Akureyri (176 þús) og Múlaþing (167 þús).
Framtak Áslaugar hefur mælst vel fyrir en hugmyndin fæddist er hún var að hugsa hvernig ráðuneyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. „Með þessu kynnist ég enn betur starfsemi sem tengist ráðuneytinu um allt land og fæ tækifæri til að prófa að starfa annars staðar en í Reykjavík,“ sagði ráðherrann er hún kynnti áform sín.
Frá því að nýtt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti tók til starfa í febrúar hefur það verið opið fyrir störfum óháð staðsetningu. Í því felst að starfsemi ráðuneytisins er ekki bundin við einn ákveðinn stað þrátt fyrir að aðalstarfsstöð þess sé í Reykjavík. Þannig geta starfsmenn ráðuneytisins unnið að heiman eða frá þeim stað á landinu sem best hentar hverju sinni. Ráðherrann er þar engin undantekning og með því að staðsetja skrifstofu Áslaugar víðs vegar um landið telur hún gefast mikilvægt tækifæri til aukinnar tengslamyndunar og samstarfs við háskóla, stofnanir, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga um land allt.
„Starfsmenn ráðuneytisins munu ekki fylgja ráðherra í þessu verkefni utan aðstoðarmanns en aðstoðarmaður fylgir ávallt ráðherra í ferðum bæði innan- og utanlands, hvort sem um er að ræða ferð til að flytja aðeins eitt ávarp eða lengri dvöl á borð við það verkefni sem hér um ræðir,“ segir Hrafnhildur Helga Össurardóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um kostnað við verkefnið. Bílstjóri verður með í för á stöðum þangað sem ráðherra ferðast á bíl. Enginn aukalegur kostnaður myndast þó fyrir ráðuneytið vegna aksturs þar sem bílstjóri er á föstum launum hjá Stjórnarráðinu. „Dagpeningar eru ekki greiddir,“ segir Hrafnhildur Helga, heldur verður greitt eftir reikningum. Engin aðkeypt vinna er í tengslum við verkefnið.
Gert er ráð fyrir að morgunmatur sé innifalinn í gistingu þar sem við á. Ráðherra, aðstoðarmaður og bílstjóri, þegar hann er með í för, fá hádegis- og kvöldmat greiddan eftir reikningum eftir því sem við á.
Ráðuneytið hefur mjög fáa fermetra til afnota
Misjafnt er eftir stöðum hvort skrifstofurými verður leigt. Stefnt er að því að nýta aðstöðu hjá undirstofnunum ráðuneytisins eða starfsstöðvum því tengdu eða að nýta samvinnurými, þekkingarsetur og/eða klasa undir skrifstofur ráðherra. Ráðuneytið greiðir hins vegar fyrir leigu á vinnuaðstöðu, sé þess þörf, og er nú aðeins gert ráð fyrir kostnaði við þá leigu í Mosfellsbæ. „Í þessu sambandi er ástæða til að minna á að ráðuneytið hefur ekki enn fengið eigin aðstöðu í Reykjavík en hefur afnot af rými í Arnarhvoli,“ segir Hrafnhildur Helga. „Ekkert ráðuneyti er með jafn fáa fermetra til afnota.“
Í hverju bæjarfélagi býður ráðherra íbúum, félögum og fyrirtækjum til viðtals auk þess sem hún er í vissum tilvikum einnig með opna fundi. Til að upplýsa um þá viðburði eru birtar auglýsingar í bæjarblöðum og/eða á samfélagsmiðlum. Áætlaður auglýsingakostnaður er miðaður við verð auglýsinga í svipaðri stærð í bæjarblöðum eða á vefsíðum bæjarmiðla hvers landshluta fyrir sig.
Í svari Hrafnhildar minnir hún á að aðeins sé um áætlun að ræða þar sem verkefnið er stutt á veg komið og raunkostnaður því óljós.
Áætlaður kostnaður eftir staðsetningu skrifstofa ráðherrans
Snæfellsbær, 18. ágúst: 131.495
Mosfellsbær, 29. ágúst: 92.000
Árborg, 5. september: 20.112
Hafnarfjörður, 12. september: 48.000
Múlaþing, 22. september: 166.880
Akureyri, 28. september: 176.180
Ísafjörður, 10. október: 183.680
Reykjanesbær, 13. október: 88.350
Vestmannaeyjar, 20. október: 122.500
Akranes, 27. október: 31.000
Samanlagður kostnaður við ákveðna þætti allra heimsóknanna
Gisting: 436.900
Vinnuaðstaða: 44.000
Flug/ferja: 146.240
Bílstjóri: 0
Fæði: 79.500
Auglýsingar: 353.557 (án VSK)