Rökstyðja þarf hvernig heildarmat heilbrigðisráðuneytis um kostnað, öryggi og aðgengi að leghálsskimunum fór fram í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um að færa rannsóknir á leghálssýnum til Danmerkur. Þetta sagði Þorbjörg Sigríður Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag. Í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins ræddi hún framkvæmd leghálsskimana og vísaði í frétt Vísis frá því fyrr í dag þar sem sagt var frá því að ákvörðun um að leita til erlendra aðila um rannsókn á sýnunum hafi það þá þegar legið fyrir að Landspítalinn hefði getað sinnt rannsóknunum.
„Hér í þessum sal hefur hefur af hálfu hæstvirts heilbrigðisráðherra verið talað um að hér hafi verið um öryggismál að ræða. En fréttir dagsins greina hins vegar frá því að þetta hafi kostnaðarmál þegar ákvörðunin um að flytja rannsóknirnar út fyrir landsteina var tekin,“ sagði Þorbjörg í ræðu sinni. Í ræðu hennar kom einnig fram að samtök yfirlækna hefðu áður sagt að yfirvöld hefðu hunsað álit fjölmargra fagaðila þess efnis að rannsóknir leghálssýna ættu að fara fram hér á landi.
Þorbjörg sagði að hún hefði nýlega lagt fram skýrslubeiðni, þar sem farið er fram á að óháður aðili vinni skýrslu um málið með það að leiðarljósi að fá fram upplýsingar um aðdraganda ákvörðunarinnar. „Markmiðið var að með því mætti stuðla að því að konur geti treyst kerfinu og að almenningur beri traust til þessa kerfis um skimun fyrir krabbameini í leghálsi. En fréttir dagsins í dag um að kostnaður hafi trompað aðrar röksemdir sérfræðinganna, þær gera því miður hið gagnstæða,“ sagði Þorbjörg.
Velferðarnefnd bíður eftir skýrslu ráðherra
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, fjallaði einnig um málið í ræðu sinni undir sama dagskrárlið. Hún sagði að nefndarfólk í velferðarnefnd hefði þann 27. janúar óskað eftir minnisblaði frá heilbrigðisráðuneytinu vegna ákvörðunar heilbrigðisráðherra um að færa rannsóknirnar úr landi. Þar var einnig óskað eftir upplýsingum um innihald samningsins við þau sem taka að sér rannsóknirnar á sýnunum.
Helga Vala sagði að starfsfólk Landspítala hafi hvorki verið spurt, né það óskað eftir því, áður en að Landspítalanum hafi verið falið að annast brjóstaskimanir. Hins vegar hafi það legið fyrir að spítalinn gæti annast rannsóknir á leghálssýnum áður en ákvörðun var tekin um að færa þær rannsóknir úr landi. Allir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um málið, utan tveggja, vilja að rannsóknirnar séu gerðar á Landspítala að sögn Helgu Völu. „Hvers vegna íslensk stjórnvöld ákváðu að sniðganga íslenskt rannsóknarfólk og þann tækjakost sem við höfum yfir að ráða og færa þessi verkefni út fyrir landsteinana er með öllu óskiljanlegt,“ sagði Helga Vala.
Hún sagði sagði velferðarnefnd ítrekað hafa ósk sína um minnisblað ráðuneytisins og óskaði hún eftir aðstoð forseta Alþingis við það að afla svara frá ráðuneytinu.