Matt Hancock, sem var heilbrigðisráðherra í bresku ríkisstjórninni þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og þar til hann neyddist til að segja af sér embætti fyrir að hafa brotið sóttvarnareglur er hann stóð í framhjáhaldi með konu sem hann hefði ekki átt að koma nær en einn meter, er á ný í pólitískum bobba.
Á þriðjudag var opinberað að hann yrði þátttakandi í einum vinsælasta raunveruleikaþætti Bretlands, I'm A Celebrity... Get Me Out Of Here! sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni ITV. Í grófum dráttum gengur raunveruleikaþátturinn út á það að frægu fólki er dembt inn í aðstæður fjarri mannabyggðum sem þau eru alls óvön og þar látin leysa ýmsar þrautir og áskoranir. Áhorfendur heima í stofu kjósa þáttakendur svo í burtu, einn af öðrum.
Komandi þáttaröð mun eiga sér stað í frumskógi í Ástralíu og þar verður Hancock staddur næstu vikurnar við upptökur, en á sama tíma mun hann þiggja full laun sem þingmaður. Talið er að Hancock fái þátttökuna í raunveruleikaþættinum afar vel launaða og hafa bresk götublöð nefnt upphæðina 350 þúsund pund, jafnvirði yfir 58 milljóna króna, sem eru um það bil ferföld árslaun hans sem þingmanns, í því samhengi.
Þrátt fyrir að Hancock hafi ekki enn birst á skjánum hefur þáttakan í þættinum þegar haft töluverða eftirmála fyrir þingmanninn, en nánast um leið og það spurðist út að hann væri mættur til Brisbane í Ástralíu að hefja upptökurnar var Hancock vikið úr þingflokki Íhaldsflokksins og situr nú þar sem óháður þingmaður. „Alvarlegt brot“ gegn starfsskyldum þingmanns.
Ákvörðun hans um að fara til Ástralíu til þátttöku í raunveruleikaþættinum hefur þannig vakið bæði undrun og reiði. Reiðin er ekki síst hjá umbjóðendum hans í kjördæminu Vestur-Suffolk í austurhluta Englands, hverra hagsmuna hann á að vera að gæta á þinginu, sem nú glímir við stór úrlausnarefni á borð við verðbólgu og svimandi orkukostnað breskra heimila.
Andy Strummond, varaformaður kjördæmisráðs Íhaldsflokksins á heimaslóðum þingmannsins gagnrýndi Hancock harðlega fyrir að fara í þáttinn og sagði orðrétt í viðtali við fréttaveituna Press Association á þriðjudag að hann „hlakkaði til að sjá hann borða kengúrutyppi“ í sjónvarpinu. „Hafðu þetta eftir mér,“ sagði Strummond við blaðamanninn, sem gerði það, og þessi ummæli hafa farið víða.
Það eru ekki bara Íhaldsmenn í heimakjördæmi þingmannsins sem eru skúffaðir yfir þáttöku Hancock í þættinum. Samtök syrgjandi fjölskyldna sem urðu fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum, og telja að Hancock sem heilbrigðisráðherra hafi ekki staðið sig í stykkinu við að hemja útbreiðslu veirunnar, segja að þáttaka hans í raunveruleikaþætti á grundvelli „frægðar“ sé móðgun við þau sem létust úr COVID.
„Hancock er ekkert frægðarmenni, hann er fyrrverandi heilbrigðisráðherra og á hans vakt var dánartíðni vegna COVID í Bretlandi ein sú hæsta á sama tíma og hann braut sínar eigin sóttvarnareglur,“ sagði í yfirlýsingu hópsins, sem kallar eftir því að hann segi af sér þingmennsku.
Segist ætla að vekja athygli á lesblindu
Það ætlar Hancock þó svo sannarlega ekki að gera. Þvert á móti hefur hann skýrt þátttöku sína í raunveruleikaþættinum með því að hann vilji ná til fjöldans í gegnum sjónvarpið. Í orðsendingu sem Hancock fékk birta í The Sun sagði hann að ástæðan fyrir því að hann ætlaði að taka þátt væri sú að hann vildi nota raunveruleikasjónvarpið sem vettvang til þess að vekja athygli á lesblindu, en sjálfur greindist Hancock lesblindur er hann var að hefja háskólanám 18 ára gamall. Segir hann svipaða sögu eiga við um allt of marga Breta, og vill að skimað verði fyrir lesblindu í auknum mæli í breskum grunnskólum.
„Sumir halda eflaust að ég sé að missa vitið, eða hafi fengið mér einum of marga drykki, fyrir að vilja fara úr þægilegum aðstæðum í Westminster og Vestur-Suffolk yfir í öfgakenndar aðstæður ástralskra óbyggða,“ sagði Hancock meðal annars í grein sinni í The Sun, en rakti svo að hann teldi þetta „frábært tækifæri til að tala beint við fólk sem er ekki alltaf áhugasamt um stjórnmál, þrátt fyrir að þau láti sig það varða hvernig landinu er stjórnað“.
„Það er starf okkar sem stjórnmálamenn að fara þangað sem fólkið er – ekki bara að sitja í fílabeinsturnum í Westminster,“ skrifaði Hancock, sem telur nauðsynlegt að stjórnmálamenn eins og hann nái til fólksins.
„Við verðum að vakna og taka þátt í poppmenningunni. Fremur en að líta niður á raunveruleikasjónvarp, ættum við að átta okkur á því að það er öflugt tól til að koma skilaboðum okkar á framfæri við yngri kynslóðir,“ segir Hancock einnig.
Bók á leiðinni
Ekki eru þó allir sannfærðir um að fýsni í að koma skilaboðum um lesblindu á framfæri við breska sjónvarpsáhorfendur sé það eina sem ráðið hafi för við ákvarðanatöku Hancock. Ráðherrann fyrrverandi er nefnilega líka að fara að gefa út bók, Pandemic Diaries, sem byggð er á minnispunktum hans sem skrifaðir voru er faraldurinn fór af stað.
Áætlaður útgáfudagur bókarinnar er eftir rúman mánuð – og ljóst að það skaðar varla sölutölurnar að birtast í einum vinsælasta raunveruleikaþætti landsins í aðdraganda þess.