Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að slakað verði á þeim reglum sem nú gilda varðandi sóttkví þeirra sem verða útsettir fyrir COVID-19 smiti. Töluvert ákall hefur verið um að reglurnar verði teknar til endurskoðunar nú þegar skólar eru að hefjast og útlit er fyrir að mörg þúsund einstaklingar verði í sóttkví á sama tíma, með tilheyrandi raski á þjóðlífinu.
Samkvæmt upplýsingum á tölfræðivef yfirvalda eru í dag 2.529 manns í sóttkví, til viðbótar við þá 1.137 sem eru í einangrun vegna staðfests smits af kórónuveirunni. Það er um 1 prósent þjóðarinnar.
Í máli ráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag kom fram að til standi að breyta reglunum, með það að markmiði að draga úr fjölda þeirra sem þurfa að fara í sóttkví vegna hvers einstaklings sem smitast.
Svandís Svavarsdóttir sagði við Ríkisútvarpið að fólki sem væri í „beinni snertingu“ við þann smitaða yrði beint í sóttkví, en hraðpróf kæmu til sögunnar fyrir þá sem stæðu þeim smitaða fjær og hefðu verið í minni tengslum við hann.
Einnig hefði verið tekin ákvörðun um að fjölskyldur barna sem skikkuð væru í sóttkví þyrftu ekki að fara sjálfar í sóttkví með barninu.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði, sömuleiðis við RÚV, að hraðpróf gætu hjálpað til við að draga úr sóttkvíarkröfum, sem reynst hefðu mjög íþyngjandi. Á ríkisstjórnarfundi morgunsins fóru heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra sameiginlega yfir fýsileika þess að nota hraðpróf og sjálfspróf við greiningar vegna COVID-19.
„Þegar allar deildir á leikskóla og allir foreldra allra barna eru komnir í sóttkví út af smiti á einni deild, þetta finnst mér allt of langt gengið,“ sagði Bjarni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við Vísi eftir fundinn að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir væri að leggja lokahönd á tillögur sínar um sóttkvína, sem vonandi yrðu kynntar með ítarlegri hætti síðar í dag.
Stjórnvöld geti ekki lagt línur til langs tíma
Ráðherrar voru spurðir út í þá framtíðarsýn sem sóttvarnarlæknir lagði fram til heilbrigðisráðherra þann 11. ágúst eftir fundinn, en engar ákvarðanir hafa verið teknar á grundvelli þeirra ráðlegginga. Forsætisráðherra sagði að Þórólfur væri að horfa til töluverðs langs tíma og stjórnvöld gætu ekki lagt línurnar langt inn í framtíðina í þessum efnum.
Svandís Svavarsdóttir tók í sama streng í samtali við RÚV. „Við getum ekki tekið ákvörðun um það nákvæmlega hvernig hlutirnir verða eftir 6 mánuði eða ár en við getum sagt að við viljum draga úr takmörkunum eins og nokkur er kostur, þó án þess að það setji heilbrigðiskerfið okkar á hliðina.“
Hún sagði stjórnvöld vera í miðri umræðu um framhaldið og einnig þyrfti að taka afstöðu til þess hvað ætti að gera núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir og hin ýmsu boð og bönn sem eru í gildi rennur út, en það er þann 27. ágúst næstkomandi.