Slitastjórn þrotabús Landsbankans hefur framlengt lokadagsetningu á frágangi samkomulags milli sín og nýja Landsbankans um lengingu á greiðslum af skuldabréfi upp á þriðja hundrað milljarð króna sem nýi bankinn skuldar þrotabúinu. Lokafrestur til að ganga frá samkomulaginu átti að vera í dag, en hefur nú verið frestað um viku, fram til 31. október 2014. Væntingar kröfuhafa Landsbankans stóðu til þess að Seðlabanki Íslands og stjórnvöld myndu gefa svar í dag um hvort undanþága fengist frá fjármagnshöftum til að ganga frá samkomulaginu. Það gekk ekki eftir.
Á heimasíðu sinni segist slitastjórnin enn bíða þessa að Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið leggi fyrir sig tillögur um skilyrði sem þrotabú Landsbankans þurfi að mæta til að undanþágurnar verði veittar. Kjarninn hefur heimildir fyrir því að unnið sé stíft að undirbúningi fyrstu skrefa í átt að losun hafta þessa daganna. Sú vinna mun halda áfram yfir helgina. Heimildir Kjarnans herma að ekki sé fyrir hendi full pólitísk sátt innan ríkisstjórnarinnar um hvaða leiðir eigi að fara.
Kjarninn fjallaði um málið í fréttaskýringu í fyrradag.
Sigmundur Davíð hefur lýst andstöðu sinni
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti yfir andstöðu við lengingu á gjalddögum skuldabréfa Landsbankans í ræðu á Alþingi í maí síðastliðnum. Þar sagði hann meðal annars: Það að lengja í þessu bréfi og það á hærri vöxtum er hins vegar ekkert augljóslega góður kostur. Þegar einhver skuldar eitthvað sem hann getur ekki borgað leysir það ekki öll mál að hækka vextina og láta þá tikka í lengri tíma.
Það sem snýr hins vegar að stjórnvöldum í þessu máli er hvort forsvaranlegt sé að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftunum bara fyrir þessa aðila á meðan aðrir verða áfram lokaðir hér innan hafta. Það getur ekki verið forsvaranlegt að veita undanþágu fyrir einn eða tvo tiltekna aðila til þess að sleppa út með gjaldeyri, jafnvel niðurgreiddan gjaldeyri, gjaldeyri sem yrði þá niðurgreiddur af þeim sem eftir sætu í höftum og þar með talið íslenskum almenningi, hugsanlega með varanlegri skerðingu á raungengi krónunnar sem þýðir einfaldlega lakari lífskjör í landinu til framtíðar. Slík niðurstaða væri alltaf óásættanleg og þar af leiðandi gætu stjórnvöld ekki heimilað undanþágu frá höftunum sem leiddi til slíks.“