Alls keyptu Íslendingar tæplega 34 þúsund rúmmetra af eldsneyti í júní síðastliðnum, samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofunni og hafa þeir ekki keypt meira síðan í júlí árið 2017. Burtséð frá árstíðartengdum sveiflum hafa eldsneytiskaup Íslendinga sveiflast töluvert með öllum COVID-19 smitbylgjunum hérlendis frá upphafi faraldursins.
Eldsneyti fylgir sóttvarnarreglum
Áhrif smitbylgnanna og sóttvarnartakmarkana sem þeim fylgdu má sjá þegar mánaðarleg eldsneytiskaup Íslendinga frá ársbyrjun 2020 til júní 2021 eru borin saman við kaupin í sama mánuði árið 2019.
Líkt og myndin hér að neðan sýnir drógust kaup Íslendinga á eldsneyti mest saman í fyrstu bylgju faraldursins, en í apríl 2020 keyptu þeir um þriðjungi minna en þeir gerðu á sama tíma árið 2019. Áhrif annarrar og þriðju bylgju faraldursins eru einnig greinileg, en eldsneytiskaupin voru 8-17 prósentum undir samsvarandi kaup árið áður.
Það sem af er þessu ári hafa þó mánaðarleg eldsneytiskaup Íslendinga verið meira en þau voru á sama tímabili árið 2019, þrátt fyrir að hafa dregist saman milli mánaða í kjölfar fjórðu smitbylgju faraldursins í apríl síðastliðnum. Í maí voru þau svo orðin tæplega fimmtungi meiri en þau voru í maí fyrir tveimur árum síðan.
Ferðamenn kaupa helmingi minna
Í tölum Hagstofu má einnig finna tölur um eldsneytiskaup erlendra ferðamanna, en þau hafa verið í skötulíki allt frá því að faraldurinn hófst fyrir einu og hálfu ári síðan. Þó hefur verið skjótur viðsnúningur á síðustu mánuðum, til að mynda voru þau tæplega fimm sinnum meiri en í sama mánuði í fyrra. Í júní námu þau um 2,600 rúmmetrum.
Hins vegar vantar enn töluvert upp á að þau nái svipuðum hæðum og á sumarmánuðum áður en að heimsfaraldurinn hófst. Samkvæmt myndinni hér að ofan, sem sýnir eldsneytiskaup ferðamanna frá ársbyrjun 2020 til júní 2021, keyptu ferðamenn helmingi minna eldsneyti í júní, miðað við sama mánuð árið 2019. Þetta er þó minnsti samdrátturinn sem hefur mælst í eldsneytiskaupum ferðamanna frá því að faraldurinn hófst í mars í fyrra.