Hold da op! (hættu nú alveg) var fyrirsögnin í einu dönsku dagblaðanna þegar frá því var greint fyrir nokkru að dönsku „þjóðardrykkirnir“ Gammel Dansk, Álaborgar-ákavíti og tólf aðrar þekktar danskar snafsategundir yrðu eftirleiðis framleiddir í Noregi. „Í Noregi, af öllum löndum“ sagði í umfjöllun þessa sama blaðs og hneykslunartónninn skein í gegn.
Síðustu flöskurnar af Álaborgar-ákavítinu og hinum þrettán tegundunum sem framleiddar hafa verið í verksmiðjum De Danske Spritfabrikker í Álaborg voru sendar í verslanir í byrjun vikunnar. Þar með er lokið sögu sem hófst árið 1881 þegar De Danske Spritfabrikker (DDSF) voru stofnaðar. Saga snafsaframleiðslu í Álaborg er reyndar mun lengri en um 1840 sameinuðust nokkur fyrirtæki sem framleiddu sterk vín og urðu á fáum árum stærst á þessu sviði í Danmörku.
Framleiðslan jókst ört og jafnframt fækkaði öðrum framleiðendum. Árið 1923 var svo komið að allar verksmiðjur í landinu, sem framleiddu sterk vín, voru í eigu DDSF. Fyrirtækið fékk sama ár einkarétt á framleiðslu sterkra vína og sömuleiðis til að framleiða pressuger. Þetta einkaleyfi var í gildi fram til 1. janúar 1973 þegar Danmörk varð aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, síðar Evrópusambandinu.
Verksmiðjubyggingarnar í Álaborg eru listaverk
Árið 1931 fluttist starfsemi DDSF í nýbyggðar verksmiðjur í vesturhluta Álaborgar. Þekktur danskur arkitekt Alf Cock-Clausen teiknaði verksmiðjuhúsin. Þar var ekkert til sparað enda eru byggingarnar, bæði að utan og innan nær óbreytt í dag, 84 árum síðar. Það sama gildir um framleiðslubúnaðinn enda sagði forstjórinn þegar verksmiðjan var tekin í notkun að hér væri ekki tjaldað til einnar nætur. Verksmiðjuhúsin, með tækjum og tólum, eru á lista dönsku Minjastofnunarinnar (Kulturarvsstyrelsen) ásamt 25 öðrum byggingum og verksmiðjuhverfum.
Álaborgar-ákavítið óbreytt síðan 1846
Þekktasti, og mest seldi drykkurinn sem DDSF framleiðir er Taffel Akvavit, sem í daglegu tali gengur undir nafninu Rød Aalborg. Þessi vinsæli snafs var fyrst framleiddur 1846 og þótt margt hafi breyst í henni veröld síðan þá gildir það ekki um þann rauða (sem er reyndar ekki rauður), þar hefur engu verið breytt. Árið 2002 var sá rauði valinn besta ákavíti í þekktustu vínkeppni í heimi.
Snafsarnir sem DDSF framleiðir eiga hver um sig sína aðdáendur og hafa flestir verið gerðir eftir óbreyttri forskrift áratugum saman.
Gammel Dansk er ekki mjög gamall
Þótt nafnið Gammel Dansk, sem margir þekkja, hljómi eins og nafn á mjög gömlum drykk er sú ekki raunin. Þessi vinsæli kryddsnafs kom á markaðinn 1964. Skömmu áður hafði DDSF sett á markaðinn annan kryddsnafs sem seldist mjög lítið og framleiðslunni var fljótlega hætt. Stjórn fyrirtækisins ákvað að gera aðra tilraun. Snafsinn fékk nafnið Gammel Dansk, kryddaður snafs og kynntur sem holl undirstaða í magann að morgni dags. Án þess að slíkt hafi beinlínis verið sannað á Gammel Dansk marga aðdáendur sem telja hann ákjósanlegt upphaf dagsins. Margir Danir nota hann líka í upphafi hátíðarmálsverðar, ómissandi á veisluborðið segja þeir. Mikið var lagt í hönnun umbúðanna, lögun flöskunnar er sérstök, ólík flestum öðrum.
Af hverju til Noregs?
Þessari spurningu veltu margir Danir fyrir sér þegar fréttir af flutningi DDSF til Noregs bárust. Svarið er einfaldlega að núverandi eigendur DDFS, Arcus Gruppen, ákváðu að flytja framleiðsluna til Noregs. Hagkvæmni réði að sögn þeirri ákvörðun. Talsmaður fyrirtækisins sagði að neytendur þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur, drykkirnir yrðu áfram þeir sömu þótt notað yrði norskt vatn við framleiðsluna. Norðmenn hefðu líka langa hefð á þessu sviði, og kynnu vel að meta snafs þótt hjá þeim sé vaninn að drekka hann volgan en ekki vel kældan eins og Danir vilja hafa hann.