Samfélagsmiðillinn Snapchat, sem býður upp á sjálfseyðandi örmyndskilaboð, hefur tilkynnt notendum sínum í Bandaríkjunum, að þeir megi eiga von á því að fara að sjá fleiri auglýsingar í "recent updates" hluta forritsins á næstunni. Snapchat birti einmitt fyrstu auglýsinguna í forritinu um helgina. "Þetta verður skrítin tilfinning til að byrja með, en við höfum ákveðið að stíga þetta skref" segir Snapchat í bloggfærslu, þar sem fyrirtækið útskýrir af hverju það hefur látið undan markaðsöflunum. Vefmiðillinn Quartz segir frá málinu.
Í áðurnefndri bloggfærslu Snapchat segir: "Bestu auglýsingarnar segja þér eitthvað meira um hluti sem þú hefur áhuga á. Sum fyrirtæki eyða miklum tíma í að safna upplýsingum um notendur sína, til að komast að áhugamálum þeirra. Þessi vara sem við erum að láta frá okkur er mikið einfaldari. Auglýsing mun af og til birtast í "Recent Updates" hlutanum þínum, og þú ræður hvort þú horfir á hana eða ekki. Ekkert stórmál, hún fer þegar þú ert búinn að horfa á hana, eða eftir 24 klukkustundir, eins í My Story."
Snapchat ætlar ekki að birta auglýsingar í persónulega samskiptahlutanum, þar sem fólk skiptist á "snöppum," eða spjallar. "Það væri bara dónalegt," eins og fyrirtækið orðar það í bloggfærslunni fyrrgreindu.
Loks segir í færslunni: "Skiljanlega, vill fólk vita af hverju við erum að kynna auglýsingar til leiks í þjónustu okkar. Svarið kemur vafalaust fáum á óvart: við þurfum að græða pening." Í bloggfærslunni lofar samfélagsmiðillinn að nota peninganna sem það þénar til að kynna nýjar vörur fyrir notendum sínum.
Um hundrað milljónir einstaklinga hafa niðurhalað Snapchat - smáforritinu á heimsvísu frá því að því var hleypt af stokkunum fyrir tveimur árum, en um 70 prósent þeirra eru konur. Notendurnir senda um 400 milljón "snaptjött" á milli sín daglega, en um 71 prósent notenda Snapchat eru undir 25 ára.
Eigendur Snapchat höfnuðu kauptilboði Facebook í snjallforritið í lok síðasta árs, sem hljóðaði upp á þrjá milljarða Bandaríkjadala.