Eigendur snjallsíma athuga símanna sína að um 1.500 sinnum á viku, að meðaltali. Þeir byrja daginn vanalega klukkan 7:31 með því að kanna tölvupóstinn sinn og Facebook. Þegar meðaltalsnotandinn leggst til hvílu að deginum loknum hefur hann kannað stöðuna á öllu sem hann telur skipta mestu í gegnum símann sinn 221 yfir daginn. Þetta kemur fram í nýlegri ransókn sem Tecmark gerði á um tvö þúsund eigendum snjallsíma í Bretlandi og Daily Mail greinir frá. Hin gríðarlega notkun þykir afhjúpa greinilega hversu háður tækninni nútímamaðurinn er orðinn.
News by Design setti niðurstöðu könnunarinnar upp í myndræna skýringarmynd.
Rannsóknin leiddi það líka í ljós að notendurnir athuga margir hverjir stöðuna á veðrinu, lesa fréttirnar og hafa samband við vini eða félaga í gegnum snjalltækin sín áður en þeir fara fram úr rúminu á morgnanna. Alls eyðir meðalnotandinn þremur klukkustundum og sextán mínútum í snjallsímanum sínum á hverjum degi.
Niðurstöður rannsóknar Tecmark sýna einnig að snjallsímarnir hafa tekið yfir mörg af þeim hlutverkum sem far- og borðtölvur höfðu áður. Nú notar meðal snjallsímanotandinn þær einungis til að framkvæma um 140 verkefni yfir daginn, tæplega 60 prósent færri en hann notar snjallsímann sinn til að framkvæma.
Íslendingar eru mjög framarlega í eign á snjallsímum, enda vanalega afar fljótir að tileinka sér tækninýjungar. Í könnun sem MMR framkvæmdi snemma haustið 2013 kom í ljós að 66,4 prósent landsmanna ættu snjallsíma. Tveimur árum áður var hlutfall þeirra 38 prósent. Til samanburðar sögðust 68 prósent Breta eiga snjallsíma, 52 prósent Bandaríkjanna og 64 prósent Rússa. Óhætt er að álykta að snjallsímaeign hafi vaxið enn meira á því ári sem liðið er síðan að könnun MMR var gert.