Forsala á nýjustu útgáfu iPhone, snjallsíma Apple, hefur farið vel af stað og tilkynntu talsmenn fyrirtækisins í dag að ef fram fer sem horfir verði sölumetið frá fyrra ári slegið. Í fyrra seldust tíu milljón eintök af iPhone 6 snjallsímum fyrstu helgina eftir að hann fór í sölu.
Í síðustu viku kynnti Tim Cook, forstjóri Apple, nýjustu útgáfu iPhone. Forpöntun á símanum, sem kemur í verslanir þann 25. september næstkomandi, hófst nú um helgina. Því hefur verið spáð að um 4,5 milljónir eintök hafi verið pöntuð á fyrstu 24 klukkustundunum, samanborið við 4 milljónir eintaka þegar iPhone 6 fór í forsölu. Fram kemur í frétt Reuters um málið í dag að Apple hafi ekki gefið upp nákvæmar sölutölur, aðeins sagt að salan sé á góðri leið með að slá fyrra sölumet auk þess sem notendur hafi sérstaklega sýnt stærri útgáfu símans, iPhone 6S Plus, aukin áhuga.
Meðal nýjunga í uppfærðri útgáfu iPhone er svokölluð 3D Touch snertiskjástækni, sem skynjar hversu fast ýtt er á skjáinn, auk þess sem myndavél símans hefur verið uppfærð. Umsjónarmenn Tæknivarpsins fóru yfir iPhone og aðrar nýjungar frá Apple í síðasta hlaðvarpsþætti sem hlusta má á hér.