Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, hefur tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn sína. Þetta tilkynnti hún í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld. Hún var fyrst kjörin formaður Eflingar í mars 2018 og endurkjörin án mótframboðs tveimur árum síðar.
Ástæðan fyrir afsögn hennar er texti sem trúnaðarmenn starfsfólks skrifstofu Eflingar samþykktu þann 9. júní og sendu þá á hana og aðra stjórnendur. Á fimmtudag í síðustu viku hafði fréttamaður RÚV samband við Sólveigu vegna þessa texta, þar sem hún er meðal annars sökuð um að halda „aftökulista“ og að fremja grafalvarleg kjarasamningsbrot gegn starfsfólki á borð við fyrirvaralausar uppsagnir. Textinn er undirritaður af trúnaðarmönnum og sagður settur fram fyrir hönd starfsmanna.
Eftir að hafa fengið póst frá fréttamanni ákvað Sólveig Anna að ávarpa starfsfólk Eflingar í upphafi vinnudags á föstudaginn síðasta, en búið var að ákveða starfsmannafund á þeim tíma. „Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.“
Sólveig Anna segir í stöðuuppfærslunni að hún kjósi að hlíta þeirri afdráttarlausu vantraustsyfirlýsingu sem starfsfólk Eflingar hafi sent henni, félaginu og fjölmiðlum, sem geri starf hennar ómögulegt. „Ég get ekki gegnt stöðu formanns í félaginu að svo komnu máli og hef ég tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn mína. Mér þykir það ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um mig og samverkafólk mitt. Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika.“
Hægt er að lesa stöðuuppfærsluna í heild sinni hér að neðan:
Á fimmtudaginn var haft samband við mig frá fréttamanni á RÚV. Hann vildi spyrja mig um texta sem að trúnaðarmenn...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Sunday, October 31, 2021