Samningur sem SORPA gerði við danska félagið Aikan um uppbyggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi án útboðs var ekki í samræmi við skilyrði laga um opinber innkaup. Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þessari niðurstöður en bæði Íslenska gámafélagið og Metanorka kærðu samninginn. SORPA þarf því að bjóða út framkvæmdina. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að félögin tvö sem kærðu telji að "tækni Aikan uppfyllti ekki þá grunnforsendu sem varnaraðili hefði sjálfur sett, að um væri að ræða reynda og prófaða tækni".
Áður en að SORPA samdi við Aikan átti fyrirtækið í viðræðum við kanadíska fyrirtækið Herhof Canada Technik í rúm tvö ár. Edward G. Hole, forstjóri þess, fer hörðum orðum um stjórn SORPU í samtali við Morgunblaðið og sakar hana um óheiðarleika. Hann segir eina tilgang viðræðna SORPU við fyrirtæki hans hafa verið að afla gagna til að styrkja samningsstöðu við Aikan.
Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU, segir fyrirtækið hafa talið sig vera í góðri trú. Auglýst hafi verið á Evrópska efnahagssvæðinu án viðbragða og athugasemdir hafi ekki komið fyrr en seint og um síðir. "Það er eins og menn hafi verið sofandi".
Ákvörðun ekki borin undir eigendur
Samningur SORPU við Aikan hefur verið töluvert til umfjöllunar á Kjarnanum. Auður Hallgrímsdóttir, atvinnurekandi og stjórnarmaður Málms, félags málm- og skipasmiða, skrifaði grein sem fjallaði meðal annars um gerð hans þann 28. febrúar. Þar sagði meðal annars: "Samningsgerð Sorpu við danska fyrirtækið Aikan um kaup á tækjabúnaði til endurvinnslu er lýsandi dæmi um ákvörðun sem ekki er borinn undir eigendur, þ.e sveitafélögin sjálf og bæjarstjórnir þeirra. Þar sem engin eigendavettvangur var til lá aðeins fyrir samþykki stjórnar með óljóst vald fyrir svo stórri fjárfestingu. Samningurinn fól í sér bæði meiriháttar breytingu á pólitískri stefnumótun varðandi flokkun og gríðaháa fjárfestingu að upphæð 2,7 milljarða. Samkvæmt góðum stjórnarháttum ætti að liggja fyrir samþykkt eigenda áður en byggðarsamlag fer í svo róttækar framkvæmdir. Í október 2014 kærði Íslenska gámafélagið Sorpu til kærunefndar útboðsmála, vegna þessa samnings við Aikan, þar sem samningsgerðin stangaðist á við lög um opinber innkaup. Framkvæmdarstjóri Sorpu segir samningsgerðina innan lögmætra heimildar Sorpu og að kæran breyti engu um fyriráætlanir byggðarsamlagsins".
Þar sagði Auður einnig að sú lausn í úrgangsmálum sem votvinnslustöð Metanorku, sem er í eigu Íslenska gámafélagsins, býður upp á styðji betur við markmið Landsáætlunar í úrgangsmálum.
Engin þekkt aðferð árangursríkari
Björn, framkvæmdastjóri SORPU, svaraði þeirri grein, og hafnaði því að ekkert samráð hefði verið haft við eigendur. Enn fremur segir í grein hans: "Sú aðferð sem SORPA hefur valið með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar er tæknilega einföld og þjónar öllum markmiðum. Með tilkomu hennar stefnir SORPA að því að endurvinna eða endurnýta 95% af öllum heimilisúrgangi. Engin þekkt aðferð hefur reynst árangursríkari".
Auður svaraði síðan þeirri grein. Hana má lesa hér.