Þrátt fyrir að Sósíalistaflokkurinn hafi ekki náð mönnum inn á þing í alþingiskosningum laugardagsins mun flokkurinn fá framlög úr ríkissjóði næstu fjögur ár, líklega um 30 milljónir króna á ári eða um 120 milljónir á kjörtímabilinu, í samræmi við fylgið sem flokkurinn fékk í kosningunum, 4,1 prósent.
Þetta fé ætlar flokkurinn meðal annars að nota til þess að fjármagna róttækan fjölmiðil, samkvæmt því sem Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar flokksins sagði í viðtali á Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Slíkur miðill er þegar til og Gunnar Smári verið í forgrunni hjá Samstöðinni, sem er „samfélagssjónvarp og vettvangur fyrir róttæka samfélagsumræðu og raddir þeirra sem ekki fá rúm í umfjöllun meginstraumsmiðla,“ eins og segir á vef stöðvarinnar.
„Við ætlum að byggja upp fjölmiðla til að styrkja rödd hinna fátæku og kúguðu,“ sagði Gunnar Smári í viðtalinu.
Hið sama var Gunnar Smári áður búinn að boða í umræðuhópi Sósíalistaflokksins, en þar sagði hann að hann teldi flokkinn í góðri stöðu þrátt fyrir að hafa ekki náð inn á þing.
„Flokkurinn fær styrk sem hann getur notað til að byggja upp öfluga alþýðuhreyfingu og róttæka fjölmiðlun, án þess að þurfa að sitja á Alþingi,“ skrifaði Gunnar Smári þar og bætti við að miðað við úrslit kosninganna hefði flokkurinn ekki lent í neinni lykilstöðu þar, heldur orðið „enn einn þingflokkurinn í stjórnarandstöðu að glíma við ofríki ríkisstjórnarinnar á þingi.“
Ekki svekktur
Gunnar Smári sagði í viðtalinu á Bítinu að hann væri ekki svekktur vegna úrslita kosninganna, nema fyrir hönd þeirra sem höfðu lagt mikið á sig í kosningabaráttunni og fengu ekki að uppskera í samræmi við væntingar sínar.
Hann sagði að barátta Sósíalistaflokksins haldi áfram þrátt fyrir að hún verði ekki háð inni á þingi, heldur utan þess. Markmiðið sé að halda áfram að „endurreisa verkalýðshreyfinguna, byggja upp önnur almannasamtök og byggja upp baráttu í samfélaginu fyrir þeim hagsmunum sem hafa setið eftir.“