Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, hefur sent erindi fyrir hönd flokksins á þá einstaklinga sem skipaðir eru í útvarpsráð Ríkisútvarpsins, með beiðni um að Sósíalistaflokkurinnn fái úthlutað auglýsingatíma hjá miðlum Ríkisútvarpsins án þess að greiða nokkuð fyrir.
Í þessu erindi Sósíalistaflokksins, sem einnig var sent til útvarpsstjóra og auglýsingastjóra RÚV auk fjölmiðla, segir að að stjórnmálaflokkarnir sem eru núna á þingi hafi ákveðið að „styrkja sjálfa sig fjárhagslega með því að færa á kjörtímabilinu 2.848 milljónir króna úr ríkissjóði í eigin sjóði, þar með talda kosningasjóði sína“ og að sú ákvörðun skaði lýðræðið „þar sem hætta er á að erindi nýrra grasrótarframboða almennings muni drukkna í auglýsingum þeirra flokka sem hafa skammtað sér þessa styrki,“ sem séu „í raun ekki til að örva lýðræðið heldur til að verja völd og stöðu þeirra flokka sem fyrir eru.“
Gunnar Smári, sem mun leiða lista Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður til komandi kosninga, segir að fjölmiðlum og þá sérstaklega Ríkisútvarpinu beri að „verja lýðræðið og heilbrigða umræðu og gæta þess að sú mynd sem þeir færa almenningi af samfélaginu sé sönn en ekki skekkt af ægivaldi peninganna“ og að sú skylda hverfi ekki „þótt þeir flokkar sem hafa komist í aðstöðu til sjálftöku úr ríkissjóði misnoti þá stöðu,“ heldur verði þvert á móti ríkari.
Verði Ríkisútvarpinu að tjónlausu
„Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokks Íslands fer því þess á leit við útvarpsráð og yfirstjórn Ríkisútvarpsins að flokkurinn fái úthlutað auglýsingatíma hjá miðlum fyrirtækisins eins og meðaltal þess sem flokkarnir á alþingi kaupa, í það minnsta eins og sá flokkur sem auglýsir minnst kaupir af Ríkisútvarpinu. Fyrirkomulagið getur verið þannig að í upphafi hverrar viku fá flokkurinn úthlutað þeim tíma sem jafngildir notkun hinna flokkanna í vikunni á undan og í kosningavikunni til viðbótar þeim tíma sem flokkarnir hafa pantað í auglýsingatímum miðla Ríkisútvarpsins,“ segir í erindinu frá Gunnari Smára.
Hann segir að það muni ekki skaða Ríkisútvarpið á nokkurn hátt að verða við þessari beiðni, heldur þvert á móti „styrkja það sem ábyrga stofnun“ og bætir við að ólíklegt sé að auglýsingatímar verði uppseldir.
„Það er því Ríkisútvarpinu að tjónlausu að verða við þessari beiðni. Það er hins vegar mikilvægt fyrir samfélagið að veita viðnám sjálftöku stjórnmálaflokkanna og tilraunum þeirra til að verja eigin völd á kostnað jafnræðis og lýðræðis,“ segir í erindinu frá framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins.