Sósíalistaflokkur Íslands hefur kynnt áætlun um að byggja 30 þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Til að setja þá tölu í samhengi þá er fjöldi íbúða í landinu 146.515 í dag, samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Áætlunin, sem gengur út á að byggja íbúðirnar inn í afmarkað húsnæðiskerfi sem verði varið fyrir verðsveiflum og fjármagnskostnaði, er hluti af kosningaáherslum Sósíalistaflokksins fyrir þingkosningarnar í september, þar sem hann mun bjóða fram í fyrsta sinn. Sósíalistaflokkurinn á enn eftir að kynna lista sína fyrir kosningarnar en flokkurinn hefur samt sem áður verið að mælast með menn inni á þingi í síðustu könnunum.
Leiga og afborganir eiga að standa undir verkefninu
Í tilkynningu frá Sósíalistaflokknum segir að byggingarkostnaður sé áætlaður um 650 milljarðar króna, eða 65 milljarðar króna á ári. Verkefnið yrði fjármagnað með skuldabréfaútgáfu, framlagi ríkis- og sveitarfélaga á lóðum og með láni með ríkisábyrgð. Því muni framkvæmdin ekki kalla á nein framlög úr ríkissjóði, heldur mun leiga og afborganir standa undir verkefninu á líftíma húsanna. „Fólk getur bæði leigt og keypt innan þessa kerfis. Það er opið öllum, þótt eðli málsins samkvæmt verði áherslan í upphafi á að koma þeim sem verst standa á húsnæðismarkaði í ódýrt og öruggt skjól. Leiguverð verður umtalsvert lægra en þekkist í dag, þar sem leigan mun greiða til baka byggingar-, fjármagns- og rekstrarkostnað á löngum líftíma íbúðanna. Þau sem vilja eiga íbúðirnar á móti Húsnæðissjóð almennings geta greitt kostnaðinn hraðar niður og eignast stærri hlut,“ segir í tilkynningunni.
Húsnæðisverð tvöfaldast á nokkrum árum
Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum og framboð dregist verulega saman. Frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2019 hækkaði til að mynda verð á íbúðarhúsnæði um 81 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Frá byrjuð árs í fyrra hefur íbúðaverð áfram hækkað stöðugt á svæðinu, eða alls um 12,7 prósent.
Í mars voru gefnir út 1.488 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði, samkvæmt nýlegum tölum frá Þjóðskrá Íslands, en þær ná eingöngu yfir samninga sem búið er að þinglýsa og því er líklegt að enn fleiri samningar muni bætast við með útgáfudag í mánuðinum. Ekki hafa fleiri viðskipti átt sér stað í stökum mánuði frá upphafi mælinga eða frá árinu 2006.
Í nýlegri skýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir enn fremur að fleiri íbúðir seljist heldur en séu settar á sölu. „Fyrir vikið hefur fjöldi íbúða til sölu haldið áfram að dragast saman. Nú eru um 830 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu miðað við um 980 þann fyrsta mars. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fækkaði íbúðum til sölu úr um 540 í um 500 og annars staðar á landinu úr 760 í 660.