Sósíalistaflokkurinn hefur birt nýjar efnahagstillögur sem fela í sér allt að 9 prósenta auðlegðarskatt og allt að tvöföldun fjármagnstekjuskatts og margföldun erfðafjárskatts. Enn fremur leggur flokkurinn til að skattheimta allra þriggja skattanna verði þrepaskipt.
Samkvæmt frétt sem birtist samhliða tillögunum hefur niðurbrot skattkerfisins á nýfrjálshyggjuárunum flutt „stórkostlega fjármuni“ úr almannasjóðum yfir til auðfólks og aukið skattbyrði meginþorra almennings.
Flokkurinn segir stighækkandi skatta vera tæki til að vinna gegn kapítalísku hagkerfi, sem flytji linnulaust fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og vilja eignast meira.
9 prósenta auðlegðarskattur
Á meðal tillagna sósíalistaflokksins er þrepaskiptur auðlegðarskattur, frá 2 prósentum á hreina eign umfram 200 milljónir króna hjá hjónum upp í 9 prósent hjá hjónum sem eiga meira en 10 milljarða króna. Flokkurinn telur að innan við 1 prósent landsmanna muni þurfa að greiða þennan skatt, þar sem eiginfjárstaða þeirra sé ekki nógu há.
Fjármagnstekjur rúmlega tvöfaldast
Einnig leggur flokkurinn til að fjármagnstekjuskattur einstaklinga verði skattlagður með sama hætti og launaskattur. Þar sem jaðarskattur fjármagnstekna er 22 prósent, en jaðarskattur launatekna er 46,25 prósent myndi slík breyting fela í sér meira en tvöföldun fjármagnstekjuskatts. Enn fremur telja sósíalistar að skattstiginn á fjármagnstekjum eigi að vera þrepaskiptur og brattur.
Erfðafjárskattur þrepaskiptur
Sósíalistaflokkurinn vill líka auka erfðafjárskatt, sem er nú í 10 prósentum. Samkvæmt flokknum er erðafjárskattur í grunninn tekjuskattur og ætti því að vera þrepaskiptur og skattlagður með sama hætti og aðrar tekjur. Skattleysismörk ættu hins vegar að miðast við „gott íbúðaverð“ og vera óbreyttur eða lægri fyrir fólk sem erfir allt að 75 milljónir króna.
„Tæki til að innleiða meiri kærleika“
„Tilgangur þessa er ekki aðeins tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitasjóði heldur að auka réttlæti og valddreifingu innan samfélagsins,“ stendur í yfirlýsingu Sósíalistaflokksins. „Óheftur kapítalismi sem skattkerfið vegur ekki á móti býr til alræði auðvaldsins, samfélag óréttlætis og grimmdar. Skattkerfið er því tæki til að innleiða meiri kærleika, sátt og réttlæti.“