Aðstandendur samfélagsmiðilsins Reddit hafa sótt sér 50 milljónir Bandaríkjadala í nýtt hlutafé að undanförnu, eða sem nemur um sex milljörðum króna. Samkvæmt fréttum fréttamiðilsins Quartz í gær er heildarvirði hlutafjár metið á 500 milljónir Bandaríkjdala í þessum viðskiptum, eða sem nemur um 60 milljörðum króna. Á meðal þeirra sem keyptu hlut í Reddit voru rapparinn Snoop Dogg og leikarinn og tónlistarmaðurinn Jared Leto. Fjárfestarnir Marc Andreessen og Peter Thiel keyptu einnig hlut.
Andreessen er þekktur nýsköpunarfjárfestir og kom meðal annars að stofnun Mosaic og Netscape, en hann rekur nú fjárfestingasjóð á sviði frumkvöðlastarfsemi.
Thiel, sem er fæddur í Þýskalandi, hefur einnig víðtæka reynslu af nýsköpunarfjárfestingum. Hann var á meðal stofnenda Pay Pal ásamt Elon Musk, eiganda Tesla Motors og SpaceX.
Upphaflega hugmyndin að baki Reddit var að gefa lesendum möguleika á því að fylgjast með því sem væri nýjast og áhugaverðast á vefnum. Miðillinn er gríðarlega vinsæll í Bandaríkjunum og þykir hafa margvíslega vaxtar- og tekjumöguleika.