Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist telja ólíklegt að hægt verði að búa við takmarkalaust samfélag á Íslandi á meðan COVID-19 geisar í heiminum og hefur lagt til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bæði aðgerðir innanlands og á landamærum til næstu mánaða hið minnsta.
Það gerði hann í minnisblaði til ráðherra sem sent var þann 11. ágúst, fyrir viku síðan. Þar kemur fram að hann telji mikilvægasta þátt sóttvarna gegn COVID-19 að lágmarka flutning veirunnar hingað til lands með farþegum. Landamæraaðgerðir eru að hans mati sömuleiðis forsenda þess að hægt verði að viðhafa lágmarkstakmarkanir innanlands. Aðgerðirnar sem Þórólfur leggur til innanlands eru keimlíkar þeim sem eru nú í gildi.
Tekið skal fram að ekki er búið að taka neinar ákvarðanir sem byggja á þessu skjali, en ríkisstjórnin ræddi það þó á fundi sínum fyrir hádegi í dag og í framhaldinu var það afhent fjölmiðlum.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kallaði þessar tillögur sóttvarnalæknis umræðugrundvöll til lengri tíma, í umræðuþættinum Pallborðinu á Vísi í dag.
„Þetta er rosalega mikilvægt plagg frá sóttvarnalækni inn í umræðuna og við eigum að horfa á þetta með þeim augum að þarna talar maður sem hefur mesta þekkingu af okkur öllum á faröldrum, hvernig þeir virka og hvar við erum stödd í þessari bylgju núna og hvers að vænta inn í næstu mánuði,“ sagði Svandís í þættinum.
Allir komufarþegar verði skimaðir
Þórólfur segir að hafa þurfi í huga að ekki sé hægt að útiloka alveg með aðgerðum á landamærum að kórónuveiran berist hingað til lands. Áhættuna sé hins vegar hægt að lágmarka með aðgerðunum sem hann leggur til, sem „ekki ættu að vera of íþyngjandi.“
Sóttvarnalæknirinn leggur til að farþegar sem hingað koma verði allir krafðir um neikvæða niðurstöðu úr ýmist PCR-prófi eða hraðprófi, óháð því hvort þeir séu bólusettir eða ekki.
Þá verði allir farþegar sem hingað koma, börn þar með talin, skimuð við komuna til landsins. Þeir sem ekki geti framvísað vottorðum um neikvæð próf við komuna til landsins þurfi að undirgangast tvö PCR-próf með 5 daga sóttkví á milli.
Að auki leggur Þórólfur til að skoðað verði hvort ástæða gæti verið til að taka í notkun hraðpróf í stað PCR-prófa á landamærunum, ef sýnt þykir að greiningargeta vegna PCR-prófa muni ekki duga við skimanir á landamærum.
„Ef ekki verður hægt að anna ofangreindum skimunum vegna fjölda ferðamanna þá legg ég til að leitað verði leiða til takmarka fjölda ferðamanna við þann fjölda sem okkar sóttvarnaráðstafanir ráða við,“ segir Þórólfur í minnisblaði sínu.
Leggur til svipaðar aðgerðir og eru nú í gildi innanlands
„Ég tel ólíklegt að hægt verði að búa hér við takmarkalaust samfélag á meðan að COVID-19 geisar í heiminum. Aldrei verður hægt að tryggja til fulls að SARS-CoV-2 berist ekki inn erlendis frá þrátt fyrir góðar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum. Ef engar takmarkanir eru til staðar innanlands þá mun hver og ein veira sem sleppur yfir landamærin geta sett af stað faraldur í slíku umhverfi. Auk þess verða aldrei allir bólusettir og vörn hjá bólusettum getur dvínað með tímanum. Því tel ég að ákveðnar takmarkanir þurfi ætíð vera til staðar til að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Slíkar takmarkanir þurfa ekki að vera íþyngjandi og eiga að geta tryggt hér eðlilegt líf,“ segir í minnisblaði Þórólfs um þær ráðstafanir sem hann leggur til innanlands næstu mánuði.
Þar er margt mjög svipað því sem er í gildi í dag og þar til að minnsta kosti 27. ágúst.
Þórólfur leggur til almenn fjöldatakmörk, sem gætu miðast við 200 manns. Stærri viðburðir gætu þó verið leyfðir, gegn því að gestir sýni fram á neikvætt PCR-próf eða antigen hraðpróf sem ekki mætti vera eldra en 24-48 klst gamalt. „Benda má á reynslu Dana af slíku fyrirkomulagi,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Hann leggur til að smitrakningu, einangrun á smitaða og sóttkví hjá útsettum verði áfram beitt og sagði reyndar einnig að tillaga sem fram hefur komið um að hætta sóttkví bólusettra yrði að hans mati „meiriháttar mistök“ í samtali við mbl.is í dag.
Sóttvarnalæknir segir að eins metra nándarregla ætti almennt að gilda áfram, nema ef til vill á viðburðum þar sem gestir sitja og eru með grímu.
Grímuskylda verði svo áfram við ákveðnar aðstæður, sérstaklega innanhúss þar sem margir koma saman, ekki er hægt að tryggja nándarreglu eða húsnæðið illa loftræst.
Þórólfur leggur til að veitingastaðir, skemmtistaðir og barir verði opnir til kl. 23 á kvöldin, eins og er í dag. Engar takmarkanir verði á skólastarfi en áhersla lögð á almennar sóttvarnir og sérstaklega verði hugað að loftræstingu og loftræstikerfum í skólastarfi og þar sem viðkvæmir hópar eru, t.d. á hjúkrunarheimilum.
Þórólfur leggur til að þessar aðgerðir „verði almennar takmarkanir sem verði við líði þar til faraldurinn verður um garð genginn,“ en gera þurfi ráð fyrir því að tímabundið þurfi að grípa til hertra aðgerða í sérstökum tilvikum í stuttan tíma ef upp koma óvænt atvik sem ekki ræðst við með öðrum aðferðum.
Styrking heilbrigðiskerfis
Einnig leggur Þórólfur til að áfallaþol og geta heilbrigðiskerfisins til að annast veika COVID-sjúklinga verði efld án þess að það komi niður á þjónustu við aðra sjúklingahópa, reglulega verði skoðað hvort gefa þurfi örvunarskammta af bóluefni gegn COVID-19 eða bólusetja með nýjum bóluefnum.
Þá þurfi að gera leiðbeiningar um reglubundnar skimanir með PCR eða antigen hraðgreiningarprófum í fyrirtækjum og á vinnustöðvum. Skylda þurfi reglubundnar skimanir á stöðum þar sem viðkvæm starfsemi fer fram, eins og á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum og styrkja sýkla- og veirufræðideild til þess að þar verði unnt að gera raðgreiningar á veirum og bakteríum. Auk þess þurfi að styrkja almannavarnir sem og sóttvarnir til að tryggja snörp viðbrögð ef útbreitt smit kemur upp.