„Ég held að við þurfum að taka á honum stóra okkar enn um sinn,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Minnisblað sóttvarnalæknis sem hann skilaði til heilbrigðisráðherra síðdegis í gær var til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun sem samþykkti að fara eftir tillögum sóttvarnalæknis í einu og öllu, það er að framlengja gildandi takmarkanir um þrjár vikur.
Aðgerðirnar fela í sér áframhaldandi 20 manna samkomutakmarkanir, með undantekningu varðandi 50 gesti á sitjandi viðburðum og 200 gesti með neikvætt hraðpróf. Tveggja metra nálægðartakmörk verða áfram í gildi og grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra regluna. Sóttvarnareglur hvað varðar skólastarf miðast áfram við 50 nemendur. Þá mega veitingastaðir með vínveitingaleyfi, skemmtistaðir og krár hafa opið til klukkan 21 en allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn klukkan 22. Skíðasvæði, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða opnar fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
Núgildandi sóttvarnareglur, sem hafa verið í gildi frá því á Þorláksmessu, renna út á morgun en verða framlengdar til 2. febrúar. Aðgerðir voru hertar vegna fjölda smita, ekki síst vegna ómíkron-afbrigðisins, sem greindist hér á landi í desember en hvert smitmetið var slegið á fætur öðru í aðdraganda jóla og náði hámarki 30. desember þegar 1.553 smit greindust innanlands og á landamærum.
Um 20 þúsund manns hófu árið í einangrun eða sóttkví og á föstudag tóku gildi breyttar reglur um sóttkví þar sem þríbólusettir eru undanþegnir hefðbundinni sóttkví. Reglunum var breytt af faglegum ástæðum að sögn sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra sagði breytingarnar gerðar til að halda samfélaginu gangandi eins og framast er kostur.
„Við erum ekki öll heilbrigð“
1.191 smit greindist innanlands í gær og 41 á landamærunum, samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum. Kona á níræðisaldri lést á Landspítala með COVID-19 í gær. 41 hefur látið lífið frá því að faraldurinn braut út fyrir tæpum tveimur árum, þar af fjórir á fyrstu dögum þessa árs. Í dag eru 39 á Landspítala með COVID-19. Sjö eru á gjörgæslu og fjórir þeirra í öndunarvél. Meðalaldur þeirra sem eru á spítala er 64 ár.
Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítala, bendir á að hér á landi er ekki einsleitur hópur af heilbrigði fólki. Í dag liggja til að mynda tveir á COVID-deild Landspítala sem eru alla jafna í skilun, þá er einnig líffæraþegi, sjúklingur með sprunginn botnlanga og barnshafandi konur. Þetta kom fram í máli Más áopnum fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun þar sem framkvæmd sóttvarnaaðgerða var til umræðu.
Már sagði mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að ekki er um einsleitan hóp af heilbrigðu fólki að ræða í íslensku samfélagi heldur sambland af fólki með langvinn veikindi sem gerir það að verkum að mjög mörg okkar standa höllum fæti. Að mati Más það skiptir höfuðmáli að útbreiðsla bólusetninga í samfélaginu sé með þeim hætti sem stefnt er að þar sem hún dregur úr hættu á alvarlegum veikindum hjá fólki sem stendur höllum fæti. „Fólk þarf að hafa það í huga, við erum ekki öll heilbrigð,“ sagði Már.
Varhugavert að stytta einangrun frekar að mati sóttvarnalæknis
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sat einnig fyrir svörum á fundinum þar sem hann var meðal annars spurður út í möguleika þess að stytta einangrun smitaðra frekar, en hún hefur nú þegar verið stytt úr tíu dögum í sjö. Þórólfur sagði það varhugavert þar sem það auki hættu á frekari útbreiðslu veirunnar.
„Mín framtíðarsýn er sú að við þurfum að búa við einhverjar takmarkanir núna til þess að halda faraldrinum í skefjum,“ sagði Þórólfur. Hann sagði marga hafa talað niður þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarið og að þær hafi ekki skilað neinu. „Það er bara ekki rétt. Vegna þess að ef að við hefðum ekki verið með þessar aðgerðir þá hefði faraldurinn verið í veldisvexti, hann er í línulegum vexti vegna þess að við erum með sama fjölda smita á dag,“ sagði Þórólfur, sem telur mögulegt að hjarðónæmi myndist á næstu vikum eða mánuðum.
Að hans mati má lítið út af bregða svo afleiðingarnar faraldursins verði alvarlegar. Þá segir hann raunhæft að stefna að 500 smitum og einum til tveimur innlögnum á spítala á dag. „Ef við missum þolinmæðina og fáum gjörsamlega nóg af þessu öllu saman og viljum bara hætta þessu þá fáum við þetta í bakið aftur, því miður,“ sagði sóttvarnalæknir.