Hagfræðideild Landsbanka Íslands spáir því að fasteignaverð muni hækka um 24 prósent að nafnvirði á næstu þremur árum, eða út árið 2017. Þetta kemur fram í Þjóðarhag, riti hagfræðideildarinnar. Hagfræðideildin spáir því hækkunin í ár verði 8,5 prósent miðað við stöðuna í byrjun ársins. Á næsta ári er því spáð að verðið hækki um 9,5 prósent, um 6,5 prósent árið 2016 og 6,2 prósent árið 2017. Yfir næstu þrjú árin nemur hækkunin 24 prósentum.
Samkvæmt þessari spá mun íbúð sem í dag er metin á 30 milljónir, vera metin á 37,2 milljónir í lok árs 2017. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar, samkvæmt spánni, verður raunverðshækkunin um 13 prósent. Þá er því spáð að leiguverði muni einnig hækka samhliða hækkunin fasteignaverðsins.
Í ritinu kemur fram að tölur Seðlabanka Íslands sýni að fyrstu kaup á fasteignamarkaði séu erfiður hjalli fyrir marga, en innan við 20 prósent af heildarveltu er vegna fyrstu kaupa, sem er minna en í venjulegu árferði. Þá segir einnig að í framtíðinni geti þessi staða þyngst enn frekar þar sem hröð hækkun fasteignaverðs muni gera fólki sem er að kaupa í fyrsta sinn, erfitt um að vik að safna upp í innborgun vegna lánaskilyrða bankanna. Hámarkslán vegna fyrstu kaupa eru 85 prósent af kaupverði hjá Landsbankanum, 90 prósent hjá Íslandsbanka (aðeins um minnstu eignirnar, annars 80 prósent), 80 prósent hjá Arion banka og 80 prósent hjá Íbúðalánasjóði.