Alþjóða orkustofnunin (IEA) spáir því að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum, aðallega sólar- og vindorku, komi til með að að aukast um 75 prósent á næstu fimm árum. Áhyggjur af orkuskorti eru ein helsta ástæðan fyrir þessu risa stökki.
Þessar áhyggjur eru tilkomnar vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hafa orðið til þess að mörg ríki, m.a. í Evrópu, hafa ákveðið að flýta orkuskiptum sínum, þ.e. umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í orkugjafa sem flokkaðir eru sem endurnýjanlegir.
Í nýrri spá stofnunarinnar verður áherslan á endurnýjanlega orkugjafa mjög fyrirferðarmikil á næstu misserum. Þannig spáir stofnunin því að 90 prósent af allri nýrri orkuvinnslu til raforkuframleiðslu verði frá endurnýjanlegum orkuauðlindum á næstu fimm árum. Árið 2025 verði slíkir orkugjafar notaðir hlutfallslega meira til raforkuframleiðslu en kol.
IEA á von á því að orkuvinnsla með endurnýjanlegum orkugjöfum eigi eftir að aukast um 2.400 gígavött á heimsvísu á næstu fimm árum, sem jafnast á við alla orkuframleiðslu Kína í dag. Þetta er 30 prósent meiri vinnsla en spá sem gerð var fyrir ári síðan reiknaði með.
Faith Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkustofnunarinnar, segir að vinnsla endurnýjanlegra orkugjafa hafi verið á góðri siglingu fyrir stríðið í Úkraínu en eftir að orkukrísa skapaðist hafi áformin sprungið út enda vilja ríki tryggja orkuöryggi sitt sem aldrei fyrr. „Heimsbyggðin mun afla meiri endurnýjanlegrar orku á næstu fimm árum en á síðustu tuttugu árum,“ er haft eftir henni í tilkynningu frá IEA. Hún segir yfirstandandi orkukrísu marka sögulegan viðsnúning í átt að hreinni og öruggari orkukerfum.
Evrópuríki hafa til þessa verið mjög háð gasi frá Rússlandi líkt og berlega kom í ljós með innrás Rússa í Úkraínu. Stjórnvöld í álfunni keppast nú við að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja orkuframtíð án þess að þurfa að stóla á rússneska gasið.
Í Bandaríkjunum, Kína og á Indlandi er einnig verið að móta stefnu og gera breytingar á raforkumörkuðum til að ýta undir hraðari þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Í skýrslu IEA segir að um helmingur nýrrar orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum í heiminum muni á næstu fimm árum verða í Kína.
Með öllum þessum fyrirætlunum er að sögn IEA líklegra að markmið Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum náist, þ.e. að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu frá því sem var við upphaf iðnvæðingarinnar.