Stýrivextir fara yfir fimm prósent fyrir lok þessa árs og verðbólgan fer hæst í 8,4 prósent í lok sumars. Vextir munu byrja að lækka, í litlum skrefum, frá miðju næsta ári og verða við 4,5 prósent í lok árs 2024. Verðbólgan verður áfram hjá á næsta ári, 5,9 prósent að meðaltali, en lækkað niður í 3,9 prósent árið eftir það.
Hagvöxtur í ár verður fimm prósent eftir 7,1 prósent samdrátt 2020 og hóflegan 4,3 prósent vöxtu úr þeirri stöðu í fyrra. Hann verður svo mun hægari á næstu tveimur árum þar á eftir, 26 til 2,7 prósent. Útflutningur í ár mun aukast um 20 prósent vegna þess að bati ferðaþjónustunnar mun drífa áfram vöxt í útflutningi og fjöldi ferðamanna verða allt að 1,6 milljónir í ár, eða tæplega 70 prósent af þeoim fjölda sem kom hingað á metárinu 2018. Atvinnuleysið heldur samhliða áfram að lækka, verður 4,4 prósent í ár og lækkar niður í 3,7 prósent að meðaltali á næsta ári. Samhliða gæti orðið skortur á vinnuafli.
Krónan mun styrkjast um fimm prósent frá apríl 2022 og til loka árs 2024 og auknar erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða og áframhaldandi inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkað munu vega gegn viðskiptaafgangi og sterkri erlendri stöðu.
Þetta eru helstu fregnirnar í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka sem birt var í morgun.
Íbúðamarkaðurinn var „tæmdur“
Í spánni er meðal annars fjallað ítarlega um stöðuna á íbúðamarkaði og sagt að enn sé mikil eftirspurnarspenna þar. Raunverð íbúða hækkaði um ríflega tíu prósent árið 2021 og umtalsvert meira en kaupmáttur launa. Helstu ástæður þess voru hagstætt lánaumhverfi og góð staða heimilanna, að mati Íslandsbanka.
Ljóst sé að enn ríki verulegt ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, það eru miklu fleiri sem vilja kaupa en sem vilja selja. „Í raun má segja að markaðurinn hafi verið tæmdur en auglýstum eignum til sölu hefur fækkað um nær 70 prósent frá upphafi faraldursins enda hefur framboð af íbúðum til sölu aldrei mælst jafn lítið. Enn eru engin merki þess að eftirspurn fari dvínandi en bæði er meðalsölutími íbúða í sögulegu lágmarki um þessar mundir og töluverður fjöldi íbúða að seljast yfir ásettu verði.“
Raunverð íbúða hækkar skarpt en kaupmáttur dregst saman
Í þjóðhagsspánni segir að Íbúðaverð hafi þegar hækkað um átta prósent að nafnvirði fyrstu fjóra mánuði ársins. Samkvæmt spá Íslandsbanka mun raunverð íbúða hækka um 13,1 prósent í ár á sama tíma og kaupmáttur launa dregst saman um 0,6 prósent. Því er bilið milli kaupmáttar og raunverðs að breikka skarpt en þetta verður í fyrsta sinn í meira en áratug sem kaupmáttur launa dregst saman.
Þetta hefur leitt til þess að íbúðaverð er orðið afar hátt í sögulegu samhengi og þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til vegna þessa hafa ekki virkað sem skyldi. Greining Íslandsbanka telur að eina lausnin til að hefta hækkandi íbúðaverð sé einfaldlega að byggja meira.
Og það er verið að byggja meira. Nýleg talning Samtaka iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýnir að nú séu um sjö þúsund nýjar íbúðir í byggingu á landinu öllu. Þar af eru um fimm þúsund á höfuðborgarsvæðinu og vonast er til að töluverður fjöldi þessara íbúða komi inn á markaðinn fyrir árslok. „Vonandi er það nóg til að anna bæði uppsafnaðri þörf sem þegar er til staðar en einnig lýðfræðilegri þróun,“ segir í spánni.
Nýtt starfsfólk mun koma að utan
Atvinnuleysi rauk upp í kórónuveirufaraldrinum og stjórnvöld þurftu að grípa til stórtækra aðgerða til að mæta stöðu þess stóra hóps sem missti vinnuna vegna hans. Almennt atvinnuleysi mældist mest í janúar 2021, 11,6 prósent, og heildaratvinnuleysi að meðtöldum þeim sem enn voru á hlutabótum í þeim mánuði var 12,8 prósent.
Samkvæmt könnun Gallup fyrir Seðlabankann og SA meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja um 40 prósent stjórnenda nú að skortur sé á starfsfólki, ekki síst í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu. Vandamálið sem atvinnulífið stendur frammi fyrir hefur því snúist algjörlega við. Fyrir rúmu ári vantaði störf fyrir fólk, nú vantar fólk í störfin.
Í þjóðhagsspá Íslandsbanka segir að fjöldi starfa sé nú orðinn meiri en fyrir faraldur en samsetning þeirra hafi líka breyst. „Nú eru um 20 prósent færri starfandi í ferðaþjónustu og tengdum greinum en fyrir faraldurinn. Það er því ljóst að það verður stór áskorun fyrir fyrirtæki í þessum geirum að ráða inn starfsfólk á næstu misserum. Stór hluti starfsfólks í þessum greinum hefur komið frá öðrum löndum og útlit er fyrir að þeim muni fjölga áfram samhliða bata í efnahagskerfinu.“
Því má búast við að fjöldi erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi haldi áfram að aukast. Þeir voru 56.100 í lok mars eða 14,8 prósent allra íbúa landsins. Til samanburðar voru erlendir ríkisborgarar hérlendis 21.900 í lok mars 2013, eða 6,8 prósent landsmanna. Þeim hefur því fjölgað um 34.200 á níu árum.