Stýrivextir gætu orðið 1,25 prósent í lok ársins og komnir yfir 3 prósent fyrir árslok 2023. Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir tímabilið 2021-2023 sem birtist í morgun.
Samkvæmt spánni er ólíklegt að vaxtahækkanir Seðlabankans verði mjög brattar, þar sem verðbólguvæntingar til langs tíma í allgóðu samræmi við verðbólgumarkmiðið og margt bendi til þess að virkni peningastefnunnar sé orðin mun meiri en áður. Því þurfi síður að grípa til umfangsmikillar hækkunar vaxta til að hafa áhrif á efnahagslífið og verðbólguhorfur til meðallangs tíma.
Þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir að stýrivextir muni haldast óbreyttir í einu prósenti í nokkra mánuði í viðbót, en að þeir verði svo hækkaðir í 1,25 prósent í árslok. Í kjölfarið á því er svo búist við hægfara hækkunarferli og að vextirnir verði komnir upp í 3,25 prósent undir lok spátímans í árslok 2023.
Bankinn telur hins vegar ekki augljóst að langtímavextir, sem eru nú rétt tæplega 4 prósent, muni hækka mikið, þar sem langtímafjárfestar búist við að stýrivextir komi til með að hækka í náinni framtíð. Mögulega muni þeir hækka örlítið á þessu ári, en bankinn býst þó við að þeir verði innan við fjögur prósent næstu tvö árin.