Hagstofa reiknar með 2,6 prósenta hagvexti í ár og 4,8 prósenta hagvexti á næsta ári. Hins vegar er spáð 7,8 prósenta atvinnuleysi og 3,2 prósenta verðbólgu að meðaltali í ár, sem er meira en í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtri þjóðhagsspá Hagstofu fyrir árin 2021-2024.
Gangi þjóðhagsspáin eftir verður hagkerfið orðið næstum því jafnstórt í ársbyrjun 2023 og það var í byrjun síðasta árs. Í ár ætti aukin einkaneysla og meiri fjárfesting að leiða hagvöxtinn, en búist er við að framlag útflutnings til hagvaxtar verði mest á næsta ári.
Hagvaxtarspá Hagstofu fyrir þetta ár er svipuð þeirri sem Seðlabankinn gerði í nóvember á síðasta ári, en þar spáði hann 2,3 prósenta vexti. Íslandsbanki var þó nokkuð bjartsýnni í þjóðhagsspá sinni í janúar, en þar bjóst hann við að hagkerfið myndi vaxta um 3,2 prósent.
Fjárfesting fyrst, svo ferðaþjónustan
Samkvæmt Hagstofu mun atvinnuleysi ná hámarki í ár og fara svo minnkandi með bata í ferðaþjónustu á spátímanum. Ekki er búist við fullum bata í greininni í ár, en þó er gert ráð fyrir rúmlega 10 prósenta vexti í útflutningi, miðað við síðasta ár. Á næsta ári er svo búist við 16,8 prósenta vexti í útflutningi.
Hagstofan gerir ráð fyrir 18 prósenta vexti í fjárfestingum hins opinbera í ár, en hún dróst saman um rúm 7 prósent í fyrra. Einnig er talið að atvinnuvegafjárfesting taki við sér á spátímanum og aukist um 6,9 prósent í ár og 7,8 prósent á næsta ári. Þar ætti sögulega lágur fjármagnskostnaður í formi lágra vaxta að styðja við þessa þróun.
Minni íbúðafjárfesting og meiri verðbólga
Hins vegar er búist við áframhaldandi samdrætti í íbúðafjárfestingu og gert ráð fyrir að hún verði 6,7 prósentum minni í ár. Samkvæmt Hagstofu leiddi samdráttur í þessari tegund fjárfestingar í fyrra, samhliða aukinni eftirspurn, til hærra íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig telur Hagstofan að verðbólga verði meiri í ár heldur en í fyrra. Reiknað er með að hún nái 3,2 prósentum að meðaltali í ár, en haldi sér svo í 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans næstu árin. Til samanburðar var verðbólgan að meðaltali 2,8 prósent í fyrra.
Fréttin hefur verið uppfærð.