Blása þurfti leik Serbíu og Albaníu af í gær eftir að slagsmál brutust út á vellinum í Belgrad. Dómarinn Mark Atkinson sá ekki annað fært en að flauta leikinn af. Atvikið sem leiddi til slagsmála tengdist dróna-flugi yfir vellinum þar sem albanski fáninn sveif yfir vellinum. Að lokum ákváðu leikmenn serbneska liðsins að toga fánann niður, og við það urðu leikmenn Albínu æfir.
Innan skamms tíma var allt orðið vitlaust á vellinum, og slagsmál brutust út á áhorfendabekkjunum milli Serba og Albana. Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) er nú að skoða til hvaða ráðstafana verður gripið, en fréttir frá Serbíu herma að bróðir forsætisráðherra Albaníu, Olsi Rama, hafi átt hlut að máli þegar drónanum var stýrt yfir vellinum. Erfitt er að meta áreiðanleika þessara frétta á þessum tímapunkti.
Atvikið minnir um margt á það þegar upp úr sauð á Maksimir vellinum í Zagreb, 13. maí 1990, þegar Rauða Stjarnan frá Belgrad og Dinamo Zagreb voru að keppa. Fyrirliði og helsta stjarna Dinamo Zagreb, Zvonomir Boban, réðst á lögregluþjón í átökunum, sem hafið lamið á króatískum leikmönnum og áhorfendum. Hann hefur síðan verið þjóðhetja í Króatíu. Gríðarleg spenna var þá orðin til í gömlu Júgóslavíu, milli þjóðarbrota og trúarhópa í landinu. Að lokum leiddi spennan til skelfilegra stríðsátaka, sem stóðu yfir frá 1991 til og með 1995. Júgóslavía liðaðist í sundur í átökunum, og í kjölfar þeirra.
Eitt besta landslið Evrópu, landslið Júgóslavíu, lagðist af og var bannað frá keppni á fyrrnefndu tímabili. Júgóslavía tók ekki sæti í úrslitakeppni EM í Svíþjóð 1992, og tóku Danir sæti þeirra, og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar.
Átökin á Maksimir vellinum í Zagreb
https://www.youtube.com/watch?v=k18WWhrmLJo