Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna fjallaði um orku- og umhverfismál undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hún sagði meðal annars að orkustefna sem byggir á framboði og eftirspurn væri fullkomlega óseðjandi og að forgangsraða ætti „íslenskri grænni orku til orkuskipta og íslenskra heimila og fyrirtækja“.
Hóf hún ræðu sína á að benda á að undanfarið hefði verið hávær umræða um orkuþörf Íslendinga til nánustu framtíðar.
„Þær myndir sem dregnar eru upp eru flestar á einn veg; að virkja meira, hraðar og betur. Aukinni orkuþörf þarf þó að mæta af skynsemi. Við þurfum að velja vel þá kosti sem best fara saman við náttúruvernd, kynna okkur nýja möguleika og framfarir í orkumálum. Sporin hræða og ljóst að náttúran má sín oft lítils þegar almannahagsmunir eru taldir í gígavöttum,“ sagði hún.
Röskun vegna Kárahnjúka mestu náttúruspjöll sem orðið hafa hér á landi
Rifjaði Jódís upp að þann 30. nóvember árið 2007 hefði Kárahnjúkavirkjun verið formlega gangsett.
„Jökulsá á Dal var virkjuð með þremur stíflum, Kárahnjúkastífla stærst þeirra, rúmir 200 metrar á hæð. Þá var talað um að ekki þyrfti að virkja framar á Austurlandi, að ósnortin víðerni önnur en þau sem fór undir Hálslón yrðu látin vera.
Nú 15 árum seinna eru uppi virkjunaráform vegna Geitdalsvirkjunar í Skriðdal í Múlaþingi, hugmynd sem hingað til hefur verið umdeild í ljósi þess að hún stendur utan þess hluta hraunasvæðis sem raskað var vegna Kárahnjúka, mestu náttúruspjalla sem orðið hafa af manna völdum hér á Íslandi,“ sagði hún.
Náttúra Íslands undir 57 ferkílómetra miðlunarlóni – ekki hagsmunir bandarískra álfyrirtækja
Þá telur Jódís það skjóta skökku við að áformin hafi komið fram á sama tíma og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fól óbyggðanefnd að gera tillögur að þjóðlendum á Austurlandi þar sem Geitdalsá rennur og að hluti áætlaðs framkvæmdasvæðis sé innan miðhálendislínu.
„Orkuumræðan gengur að miklu leyti út á að hér séu allir virkjunarkostir grænir, að Ísland geti og beri til þess skylda gagnvart loftslagsvánni að framleiða eins mikið af orku og mögulegt er. Þá er mikilvægt að muna að það er náttúra Íslands sem er undir 57 ferkílómetra miðlunarlóni Kárahnjúka, ekki hagsmunir bandarískra álfyrirtækja. Þá er mikilvægt að muna að Kárahnjúkar áttu að duga Austurlandi fyrir orku um ókomna tíð.
Höfum það til höfðalags að orkustefna sem byggir á framboði og eftirspurn er fullkomlega óseðjandi. Forgangsröðum íslenskri grænni orku til orkuskipta og íslenskra heimila og fyrirtækja,“ sagði hún að lokum.