Tónlistarveitan Spotify er að undirbúa innreið á netmyndbandamarkaðinn, samkvæmt frétt Wall Street Journal. Þar ætlar sænska fyrirtækið að takast á við risa á borð við Youtube og Facebook.
Í frétt blaðsins segir að Spotify hafi átt í viðræðum við þónokkra stóra aðila innan stafræna fjölmiðlaheimsins um mögulegt samstarf. Á meðal þeirra eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í að búa til og dreifa efni á Youtube. Hugmyndin er þá að efni þeirra fari frekar á nýjan vettvang Spotify auk þess sem fyrirtækin myndu framleiða nýtt efni sérstaklega í samstarfi við Spotify. Þá hafa viðræður einnig átt sér stað við hefðbundnari fjölmiðlafyrirtæki.
Á meðal fyrirtækja sem Spotify hefur átt í viðræðum við eru Time Inc., Tastemade, Maker Studio og Fullscreen. Búist er við því að Spotify kynni mögulega þessa breytingu í þessum mánuði. Þegar hefur verið boðað til kynningar á vegum sænska fyrirtækisins þann 20. maí næstkomandi en engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvað standi til að kynna.
Mikið tap á rekstri Spotify
Þótt vöxtur Spotify hafi verið gríðarlegur undanfarin ár, og líkast til hafa fá ef nokkur fyrirtæki hrist jafn rækilega upp í tónlistargeiranum með jafn afgerandi hætti og það undanfarin ár, hefur fyrirtækið aldrei skilað hagnaði.
Í fyrra námu tekjur Spotify 172 milljörðum króna, en samt tapaði fyrirtækið 26 milljörðum króna á árinu. Það var meira tap en árið 2013 þegar tapið nam um níu milljörðum króna.
Alls eru notendur Spotify um 60 milljónir alls, en greiðandi áskrifendur eru um 15 milljónir. Stjórnendur fyrirtækisins segja að tapið skýrist fyrst og fremst að kostnaði vegna vöruþróunar, aukningu á þjónustu og ýmis konar leyfismálum.
Þessi staða, að Spotify sé enn að tapa stórum fjárhæðum, gæti skýrt að hluta áform fyrirtækisins um að fara inn á netmyndbandsmarkaðinn. Í gegnum hann getur fyrirtækið nefnilega haft miklar auglýsingatekjur.
Það er þó ekki auðvelt að ná fótfestu á netmyndbandamarkaðinum. Youtube trónir þar yfir öðrum og tekur 45 prósent af öllum auglýsingatekjum myndbanda sem sýnd eru á veitunni. Alls námu tekjur Youtube, sem er í eigu Google, um 528 milljörðum króna í fyrra. Samt skilaði fyrirtækið rétt svo hagnaði. Facebook hefur einnig verið að færa sig mjög upp á skaftið á netmyndbandamarkaðinum. Það eru því engir smá fiskar sem Spotify ætlar að fara að slást við.