„Sérstök hernaðaraðgerð“ Rússa, líkt og Vladimír Pútín forseti orðar það, er hafin í Úkraínu. Mánuðum saman hefur hættan á átökum vofað yfir. Tugþúsundir hermanna höfðu safnast að landamærunum til „heræfinga“ eins og reynt var að halda fram. En nú hefur her Rússa látið til skarar skríða. Stjórnvöld í Úkraínu segja árásir hafa verið gerðar bæði frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
Pútín flutti sjónvarpsávarp snemma í morgun og sagði markmið sitt með innrás í Úkraínu vera að „aflétta hernaðaryfirráðum“ í landinu en ekki hernema það. Aðeins nokkrum mínútum síðar mátti sjá stóran glampa frá sprengjum á morgunhimninum í nágrenni Kharkiv, annarrar stærstu borgar Úkraínu og einnig herma fréttir, að því er New York Times greinir frá, að sprengingar hafi heyrst í höfuðborginni Kænugarði. Þá hafa fréttir einnig borist af sprengingum annars staðar í landinu. Ennfremur greinir Washinton Post frá því að sjónarvottar segi sprengingar hafa orðið á flugvellinum í Kænugarði. Loftvarnaflautur voru þandar í höfuðborginni en segja stjórnvöld það hafa verið gert til að vekja borgarbúa. Ekki sjáist enn til herflugvéla.
Örvænting
Langar raðir bíla hafa myndast við bensínstöðvar í Úkraínu og miklar umferðarteppur eru í Kænugarði, m.a. á vegum út úr borginni. Úkraínumenn hafa á undanförnum vikum og mánuðum haldið ró sinni, en um leið og sprengja féll á flugvöllinn í morgun, að sögn New York Times, var ógnin orðin áþreifanleg. Fólk flykktist í matvöruverslanir og biðraðir eru við hvern einasta hraðbanka í Kænugarði.
New York Times hefur eftir innanríkisráðuneyti Úkraínu: „Innrásin er hafin“. Utanríkisráðherrann skrifaði á Twitter í morgun að „allsherjar stríð“ Pútíns gegn Úkraínu væri byrjað. „Úkraína mun verja sig og fara með sigur. Heimsbyggðin verður að bregðast við og stöðva Pútín. Það er tímabært að bregðast við – nú þegar.“
Pútín segist vera bregðast við ákalli leiðtoga aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu. Hann segir aðgerð sína „spurningu upp á líf og dauða“ fyrir Rússa sem væru að verða aðþrengdir vegna NATO sem Úkraína hefur óskað eftir að ganga inn í. „Þetta er þessi rauða lína sem ég hef oft talað um,“ sagði Pútín í ávarpi sínu. „Þeir hafa nú farið yfir hana.“
Hótarnir í garð annarra ríkja
Markmið hernaðaraðgerðanna er að sögn Pútíns að „verja fólk sem hefur í átta ár þurft að þola ofsóknir og þjóðarmorð af hálfu stjórnvalda í Kænugarði“.
Blaðamenn New York Times túlka svo ávarp hans í morgun sem beina hótun gegn öðrum ríkjum.
„Hver sá sem reynir að skipta sér af okkur, eða að ganga lengra og skapa ógn fyrir land okkar og þjóð, skal vita að Rússland mun bregðast við þegar í stað þannig að afleiðingarnar verða eitthvað sem þið hafið aldrei upplifað áður í sögu ykkar.“
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir innrásina „óréttlætanlega“ og eingöngu á ábyrgð Rússa. Hann segir Pútín hafa valið stríð sem muni hafa hamfarakenndar afleiðingar í för með sér, mannfall og þjáningar.