Varaþingmaður Pírata, Lenya Rún Taha Karim, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna (VG), ræddu útlendingamál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Lenya Rún spurði Katrínu meðal annars hvort hún stæði við stefnu eigin ríkisstjórnar í útlendingamálum og hvort hún ætlaði að láta Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra einum eftir að sjá um þau mál án þess að hún og aðrir ráðherrar hennar flokks skiptu sér af.
Katrín sagði að þrír flokkar væru í ríkisstjórninni og að þeir væru ekki með sömu stefnu í útlendingamálum. Að sjálfsögðu stæði hún með stefnu VG í útlendingamálum. „Hins vegar er það hlutverk allra þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborð að finna lausnir, líka þegar flokkarnir við ríkisstjórnarborðið eru ekki fullkomlega sammála. Það er bara eðli þess að sitja í ríkisstjórn, að ég tali nú ekki um að leiða ríkisstjórn,“ sagði ráðherrann.
Lenya Rún hóf fyrirspurn sína á því að benda á að þegar forsætisráðherra kynnti núverandi ríkisstjórn á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum hefði hún sagt að uppstokkun ráðuneytanna sýndi einbeittan vilja til að láta Stjórnarráðið vinna saman sem samhenta heild.
„Það gaf mér vonir um að hin mörgu ólíku sjónarmið sem fyrirfinnast á stjórnarheimilinu fengju aukið vægi í ríkisstjórninni í stað þess að ráðherrar yrðu einvaldar í sínum ráðuneytum eins og hefur tíðkast svo lengi. Það væri í anda þeirra samræðu- og sáttastjórnmála sem ríkisstjórnin segist vilja stunda.
Annað hefur hins vegar komið á daginn, ekki síst þegar kemur að útlendingamálum, og við höfum fengið að fylgjast með tveimur ráðherrum takast opinberlega á í fjölmiðlum þar sem ráðherrar ýmist ljúga eða eru sakaðir um að ljúga,“ sagði varaþingmaðurinn.
Frumvarpið verið rætt í 13 klukkustundir og 15 mínútur í þingsal
Þá rifjaði Lenya Rún upp að Katrín hefði talað um mikilvægi regluverks og þess að fara í heildstæða stefnumótun í þessum málaflokki. Ráðherrann hefði látið það hljóma eins og engin slík stefnumótun hefði farið fram. „Þvert á móti hefur stefnumótun ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum birst fjórum sinnum í frumvarpi sem blessunarlega hefur verið stöðvað þrisvar sinnum og verður vonandi stöðvað í það fjórða en umrætt frumvarp hefur verið rætt í 13 klukkustundir og 15 mínútur í þingsal frá því að það var lagt fram árið 2020.“
Spurði hún Katrínu hvort hún hefði ekki samþykkt þetta frumvarp fjórum sinnum út úr ríkisstjórn. „Er þetta frumvarp ekki einmitt stefnumótunin sem forsætisráðherra segist kalla eftir? Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að draumastefnumótun hæstvirts forsætisráðherra í útlendingamálum liggi fyrir. Annars hefði ríkisstjórnin sem hún leiðir ekki samþykkt þetta frumvarp fjórum sinnum.“
Lenya Rún spurði eins og áður segir hvort Katrín stæði við stefnu eigin ríkisstjórnar í útlendingamálum og hvort hún ætlaði að láta dómsmálaráðherra einum eftir að sjá um þau mál án þess að hún og aðrir ráðherrar hennar flokks skipti sér af.
Ekki á eitt sátt um framkvæmd og túlkun laganna
Katrín svaraði og sagði að það hefði verið gæfuspor þegar Alþingi Íslendinga samþykkti lög um útlendinga árið 2016 sem tóku gildi ári síðar. „Þau lög voru samþykkt í ótrúlega breiðri samstöðu, ekki fullkominni samstöðu en ótrúlega breiðri samstöðu. Ég man að þá var rætt um hversu mikið gæfuspor þetta væri, að við værum ekki að stefna þessum málum í skotgrafir eins og við höfum séð hjá öðrum þjóðum.
Síðan þá hefur hins vegar komið á daginn að við erum ekki á eitt sátt um framkvæmd þeirra laga og túlkun þeirra laga. Mín skoðun er sú að lögin sjálf standist enn vel tímans tönn. Mín skoðun er sú að þær breytingar sem gerðar hafa verið, til að mynda hvað varðar tímafresti, sérstaklega hvað varðar málefni barna, og þeir tímafrestir styttir þannig að börn og fjölskyldur þeirra njóti forgangs þegar kemur að því að taka mál þeirra til meðferðar, hafi verið skynsamlegar ráðstafanir. En mín skoðun er sú að þessari löggjöf hefði átt að fylgja eftir með ákveðnu samráði um sýn og stefnumótun í málefnum útlendinga,“ sagði ráðherrann.
Það kynni að vera að aðrir þingmenn væru ósammála henni um það en Katrín bætti því við að íslensk stjórnvöld tækju á móti töluvert mörgu fólki á flótta sem fengi hér vernd. „Ég fór með tölur áðan sem ég ætla að gera þann fyrirvara við að þær eru líklega frá upphafi árs 2017 en ekki frá upphafi síðasta kjörtímabils, bara svo öllu sé til haga haldið í þeim efnum. Við erum líka með mikinn fjölda útlendinga sem ekki er fólk á flótta, fólk sem kemur hingað og vinnur. Mér finnst á það skorta að við sem stjórnkerfi – og ég get tekið mína ábyrgð á því sem forsætisráðherra – vinnum nægjanlega vel saman í því að tryggja lífskjör og lífsgæði allra þeirra sem hingað koma, hvort sem er til að leita ásjár í okkar verndarkerfi eða til að leita sér að tækifærum. Það er sú stefnumótun sem mig langar að sjá fara fram í þverpólitísku samráði.“
Sér ekki betur en að frumvarpið fari á skjön við stefnu VG
Lenya Rún þakkaði ráðherra í seinni fyrirspurn sinni fyrir andsvarið. „Hún nefnir að útlendingalögin hafi verið samþykkt árið 2016 og að ríkt hafi mikil ánægja um þau lög. En hver er tilgangurinn með því að samþykkja þessi lög, sem voru samþykkt í mikilli samstöðu, ef við erum með ríkisstjórn sem túlkar lögin þeim í óhag sem hingað leita?“ spurði varaþingmaðurinn.
Hún spurði aftur hvort Katrín stæði á bak við stefnu síns eigin flokks í þessum málaflokki eða stæði hún á bak við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Væri Katrín ánægð með þá stefnumótun sem ríkisstjórn hennar hefði staðið fyrir í útlendingamálum og endurspeglaðist í þeim lagabreytingum sem ítrekað hefðu verið lagðar til og hafnað og reynt á að fá samþykktar í fjórða skiptið? „Af því að ég get ekki séð betur en að þetta fari á skjön við stefnu VG í útlendinga- og flóttamannamálum, því miður.“
Hlutverk allra þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborð að finna lausnir
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að þrír flokkar væru í ríkisstjórninni og að þeir væru ekki með sömu stefnu í útlendingamálum. Að sjálfsögðu stæði hún með stefnu Vinstri grænna í útlendingamálum.
„Hins vegar er það hlutverk allra þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborð að finna lausnir, líka þegar flokkarnir við ríkisstjórnarborðið eru ekki fullkomlega sammála. Það er bara eðli þess að sitja í ríkisstjórn, að ég tali nú ekki um að leiða ríkisstjórn,“ sagði hún.
Katrín sagði jafnframt að mikilvægt væri að ræða stefnumótun í þessum efnum – meðal annars samspil atvinnu- og dvalarleyfa.
„Þar þurfa tvö ráðuneyti að vinna saman. Háttvirtur þingmaður nefndi samstarf ráðuneyta í fyrri spurningu sinni. Það getur oft reynst gríðarlegum erfiðleikum háð að ólíkar einingar stjórnkerfisins vinni saman en þessi stóri málaflokkur á það svo sannarlega skilið að ekki bara þessi tvö ráðuneyti heldur öll ráðuneyti, ég nefni hér menntamálaráðuneyti og önnur ráðuneyti, komi saman að því að tryggja heildstæða stefnu í málefnum útlendinga sem við sem samfélag höfum ekki mótað. Ég get tekið það á mig að sú heildstæða stefna hafi ekki verið mótuð á síðasta kjörtímabili, það hefði kannski betur verið gert. En verkefnið núna er að ljúka þeirri stefnumótun þannig að við getum líka sannarlega verið stolt af því sem við erum að gera, sem um margt er gott. En í sumu er tvímælalaust úrbóta þörf,“ sagði hún.