Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að litið hafi verið til fordæmis frá síðustu ríkisstjórn þegar tekin var ákvörðun um það að ráða Hörð Þórhallsson sem framkvæmdastjóra nýrrar Stjórnstöðvar ferðamála án auglýsingar.
Þetta sagði Ragnheiður Elín þegar Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hana um það hvers vegna Hörður hefði verið ráðinn. „Hvernig datt ráðherranum það í hug að gera þessari mikilvægu atvinnugrein það að leggja af stað í þennan leiðangur með því að ráða yfir þetta verkefni, án auglýsingar, aðila fyrir tvær milljónir króna á mánuði? Verra upphaf á leiðangri er ekki hægt að hugsa sér,“ sagði Katrín.
Ragnheiður Elín svaraði ekki þeirri spurningu beint. „Varðandi framkvæmdastjórann þá er þetta samstarfsvettvangur ríkisins og greinarinnar eins og hér kom fram og þá er því til að svara kannski fyrst og síðast að það var vilji okkar til þess að láta þetta verkefni fara strax af stað að finna hentugan aðila og það kom ekki síður frá samtökum ferðaþjónustunnar sú krafa,“ sagði hún.
„Ég verð að segja að það var meðal annars litið til fordæma sem voru sett hér á síðasta kjörtímabili þar sem að samstarf ríkis og atvinnugreinarinnar í verkefni sem að fyrirspyrjandi þekkir vel þar sem að stjórnarformaður Inspired by Iceland var ráðinn án auglýsingar og samningar við hann framlengdir ítrekað án auglýsingar. Ég reyndar breytti því verklagi og núna erum við með það innanhúss en þetta er sannarlega fordæmi sem litið var til í þessu samhengi,“ sagði Ragnheiður Elín.
Ráðning Harðar hefur verið umdeild, enda var hann ráðinn til starfsins án þess að það væri auglýst, er með tvær milljónir króna á mánuði, auk þess sem hann hefur ekki reynslu af ferðamálum. Hann hefur undanfarin ár starfað hjá Actavis.