„Ég held að ég geti sagt það alveg óhikað að ég mun að sjálfsögðu vinna að því markmiði að við séum ekki að skerða framtíðarstöðu lífeyrisþega. En þurfum við að huga að fleiru en eingöngu fjármögnun ríkissjóðs,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í svari við óundirbúinni fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þingmanni Viðreisnar.
Þorgerður Katrín spurði undir lok fyrirspurnar sinnar hvort að forsætisráðherra myndi beita sér fyrir því að koma í veg fyrir að að lífeyrisþegar framtíðarinnar muni koma til með að borga fyrir þann halla sem nú er á ríkissjóði. Spurninguna bar hún upp eftir að hafa útlistað sjö staðreyndir um íslenskt efnahagslíf eins og það er í dag.
Sjö staðreyndir Þorgerðar
Þorgerður sagði í fyrsta lagi að ríkisstjórninni hefði ekki tekist að fá innlend lán á lágum vöxtum til að fjármagna halla ríkissjóðs. Í öðru lagi að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hefja erlendar lántökur með gengisáhættu. Þriðja staðreynd Þorgerðar sneri að verðbólgu en hún sagði hana meiri hér á landi en í öðrum vestrænum ríkjum. Í fjórða lagi að atvinnuleysi hefði aldrei verið jafn mikið í sögu þjóðarinnar og nefndi Þorgerður að langtímaatvinnuleysi hefði aukist á milli mánaða.
Í fimmta lagi að ríkisstjórnin hefði flutt frumvarp sem veitir Seðlabankanum heimild til að setja á gjaldeyrishöft sem Þorgerður sagði að gæti þrengt að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, verði það nýtt. Þá sagði Þorgerður að samhliða vaxandi verðbólgu hefði Seðlabankinn talað fyrir lækkun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða sem dragi á líkum á því að þeir geti staðið við heit sín um að iðgjaldagreiðslur haldi verðgildi sínu. Og loks í sjöunda lagi sagði Þorgerður að vegna útgjaldaaukningar ríkissjóðs gæti stýrivaxtahækkun verið í kortunum og vísaði hún þar í orð Seðlabankastjóra, Ásgeirs Jónssonar.
Útflutningsatvinnuvegir muni rétta úr kútnum
Katrín sagði í svari sínu að íslenskt hagkerfi standi frammi fyrir skelli í útflutningi. Á sama tíma hafi verið kynnt undir innlendri eftirspurn vegna trúar á að útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar muni rétta úr kútnum með auknum útflutningstekjum. Þá sagði hún Seðlabankann vinna að því með ríkissjóði að takmarka gengisáhættu vegna fjármögnunar ríkissjóðs, enda búi hann yfir ríkulega gjaldeyrisvaraforða.
Þá sagði Katrín gagnrýndi Katrín þá mynd sem Þorgerður drægi upp af íslensku efnahagslífi. „Ég vil minna háttvirtan þingmann hér á, sem kemur hér upp og talar eins og allt sé í kaldakoli að staðreyndin er sú að samdrátturinn er minni en spáð var. Afkoma ríkissjóðs er betri og það er vegna aðgerða stjórnvalda,“ sagði Katrín.