Þingmaður Viðreisnar, Guðbrandur Einarsson, spurði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag hvort verið væri að fara rétta leið til að ná stöðugleika í efnahagsmálum sem væri bæði mikilvægur og eftirsóknarverður fyrir íslenskan almenning.
„Samkvæmt framkomnum upplýsingum greip Seðlabanki Íslands inn í á gjaldeyrismarkaði síðastliðinn föstudag og keypti gjaldeyri fyrir rúmar 800 milljónir króna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar.
Það liggur fyrir að styrking krónunnar myndi leiða til lækkunar á verði innfluttrar vöru og ætti því að draga úr verðbólgu. Í stað þess að leyfa krónunni að styrkjast til hagsbóta fyrir almenning velur Seðlabankinn að halda krónunni veikri og hækka vexti í stað þess að reyna að draga úr verðbólguþrýstingi,“ sagði Guðbrandur í upphafi ræðu sinnar.
Hann sagði að gengisstyrking sem slík ætti að auðvelda Seðlabankanum að ná markmiðum sínum um 2,5 prósent verðbólgu.
Stýrivextir eru 3,75 prósent og verðbólgan hefur ekki mælst meiri í 12 ár
Kjarninn greindi frá því í byrjun maí þegar Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti bankans í 3,75 prósent. Um var að ræða eins prósentustiga hækkun frá því sem áður var og alls hafa vextir hækkað um þrjú prósentustig frá því í maí í fyrra, þegar vaxtaákvörðunarferli Seðlabanka Íslands hófst.
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og hefur ekki mælst meiri frá árinu 2010. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent. Horfur hafa því versnað verulega og verðbólgan er órafjarri markmiði bankans. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar við vaxtahækkunina kom fram að sem fyrr vægi hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefði hækkað mikið.
Vill leyfa krónunni að styrkjast
Guðbrandur sagði á þingi í dag að sú leið sem Seðlabankinn er að fara, þ.e. að beita stýrivaxtahækkunum í stað þess að leyfa krónunni að styrkjast, hefði jafnframt í för með sér að vaxtamunur við útlönd væri að aukast. Það myndi að endingu auka innflæði fjármagns sem aftur ætti að gera það að verkum að krónan myndi halda áfram að styrkjast.
„Einhverra hluta vegna á maður erfitt með að skilja hvers vegna þessi leið er valin, að hækka stýrivexti og koma í veg fyrir að krónan styrkist. Það að leyfa krónunni að styrkjast ætti að auðvelda Seðlabankanum að rækja hlutverk sitt og skyldu um að halda verðbólgunni í skefjum og auðvelda íslenskum almenningi lífið. Seðlabankinn velur hins vegar aðrar leiðir og maður hlýtur að spyrja hvort Seðlabankinn sé í liði með íslenskum almenningi,“ sagði hann.