„Hvenær kannaði ráðuneytið tengsl Alexanders Mosjenskís og Alexanders Lúkasjenkós, hvernig fór sú athugun fram og hvaða gagna var aflað?“ Að þessu spyr Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í skriflegri fyrirspurn til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisáðherra.
Í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar sem birtist í síðustu viku undir yfirskriftinni „Ólígarkinn okkar“ eru íslensk stjórnvöld sögð hafa beitt sér gegn því að Evrópusambandið (ESB) beitti Aleksander Moshensky, kjörræðismanni Íslands í Hvíta-Rússlandi, viðskiptaþvingunum.
Moshensky er einn umsvifamesti viðskiptajöfur Hvíta- Rússlands og hefur auk þess verið kjörræðismaður Íslands þar í landi frá árinu 2007. Hann er talinn mjög handgengur Aleksander Lukashenko, forseta landsins, og hefur hagnast gríðarlega í einu miðstýrðasta efnahagskerfi Evrópu, sem byggir mjög á nánu sambandi við ráðamenn. Veldi hans veltir um 220 milljörðum króna á ári. Fyrir vikið er Moshensky oft kallaður„veski Lukashenkos“.
Á meðal þeirra sem Moshensky stundar viðskipti við eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Hann kaupir mikið magn sjávarafurða héðan, sérstaklega loðnu, síld og makríl, og hagsmunir íslenskra útgerða í viðskiptum við hann hlaupa á milljörðum króna. Þau viðskipti eru meðal annars við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum en í Stundinni segir að náin vinátta hafi skapast milli Moshensky og forstjóra Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar.
Nafn Moshensky fjarlægt af refsiaðgerðalistum að minnsta kosti þrisvar sinnum
Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar var nafn Moshensky ítrekað á lista yfir þá sem Evrópusambandið hafi ætlað að setja á lista yfir fólk sem refsiaðgerðir nái til, en að það hafi ætið verið fjarlægt skömmu áður en listarnir voru formlega samþykktir. Það hafi gerst árið 2012, þegar sambandið ætlaði að koma í veg fyrir að auðmenn sem höfðu hagnast í skjóli Lukashenko fengu að stunda viðskipti innan þess. Sjö nöfn voru á upphaflega listanum en tvö sluppu af honum fyrir formlega samþykkt. Annað þeirra er Alexander Moshensky.
Eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi árið 2020, sem fjöldi þjóða, meðal annars Ísland, neita að viðurkenna að hafi verið lögmætar, var aftur tekinn saman listi innan Evrópusambandsins. og aftur var Moshensky á honum í upphafi, en ekki þegar endanlegur listi var samþykktur.
Í maí 2021 kastaðist enn í kekki í samskiptum Lukashenko við umheiminn þegar farþegaflugvél Ryanair var skipað að lenda í landinu af herþotum vegna þess að blaðamaður sem hafði gagnrýnt forsetann var um borð. Aftur átti að herða þvinganir gagnvart einstaklingum sem veittu Lukashenko fjárhagslegan styrk, aftur átti Moshensky að vera á honum en aftur slapp hann við það á endanum. Í Stundinni er haft eftir heimildarmönnum að þar hafi hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda fyrir hönd Moshensky „vegið þungt“.
Á hverju byggir mat ráðherra?
Í skriflegu svari utanríkisráðherra í umfjöllun Stunfarinnar segir að „það hefur verið mat ráðuneytisins að það sé orðum aukið að kjörræðismaður Íslands sé mjög náinn bandamaður Lúkasjenkós“.
Jóhann Páll spyr sérstaklega út í þessi orð ráðherra í fyrirspurn sinni og á hverju það mat byggist.