Markmið um útgjaldavöxt eins og þau birtast í fjármálaáætlun eru óraunhæf og skapa ekki grundvöll fyrir þær umbætur sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála að mati Alþýðusambands Íslands.
Í umsögn sambandsins við fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 er bent á að stefnt sé að því í fjármálaáætlun að stöðva hækkun skulda sem hlutfalls af landsframleiðslu fyrir árslok 2026. „Það er í samræmi við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Til þess að ná því markmiði þarf halli hins opinbera að minnka ár frá ári. Samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun fer halli hjá hinu opinbera úr 183 milljörðum í ár niður í 34 milljarða árið 2027. Það er lækkun upp á 149 milljarða.“
Af þeirri lækkun má rekja 40 milljarða til afkomubætandi ráðstafana á bæði tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs. Því til viðbótar stendur til að skattleggja ökutæki og umferð. „Að lokum er lækkun hallans náð með aðhaldskröfu á öll rammasett útgjöld nema á heilbrigðis- og öldrunarstofnanir, skóla, dómstóla, bótakerfi og sjúkratryggingar. Gert er ráð fyrir að í lok tímabils leiði aðgerðir til tæplega 12 milljarða króna lækkunar á útgjöldum.“
Úrbótatillögur í stjórnarsáttmála kalli á aukin útgjöld
Rammasett útgjöld munu hækka árlega um eitt prósent á föstu verðlagi frá 2022 til 2027. Það segir ASÍ fela í sér mjög takmarkað svigrúm til aukinna útgjalda næstu árin en í umsögninni er vitnað beint í fjármálaáætlun þar sem fjallað er um þetta svigrúm: „Hægfara raunvöxtur felur í sér að lítið svigrúm er til nýrra eða aukinna útgjalda á tímabilinu. Fjármögnun nýrra eða aukinna verkefna mun því að stórum hluta fara fram með forgangsröðun og bættri nýtingu fjármuna innan gildandi útgjaldaramma.“
Í umsögninni er þeirri spurningu velt upp hvort framlögð áætlun sé í samræmi við stjórnarsáttmála og vitnað er í umsögn fjármálaráðs þar sem spurt er hvort „framlögð áætlun feli í sér nægilegt svigrúm til að standa við fyrirheit stjórnmálanna eins og þau eru boðuð í stjórnarsáttmála.“ ASÍ bendir á að í stjórnarsáttmálanum séu margar úrbótatillögur sem kalli á aukin útgjöld. Fyrirséð sé að útgjöld aukist umfram áætluð útgjöld, meðal annars vegna mótvægisaðgerða vegna verðbólgu, fjölgunar flóttamanna og byggingar þjóðarleikvangs.
Lækkun bankaskatts verði dregin til baka
Að mati ASÍ er mikilvægt að tekjustofnar ríkisins verði styrktir á komandi árum. Bent er á það í umsögninni að stefnt sé að því að draga úr neikvæðri undirliggjandi afkomu hins opinbera sem hefur verið neikvæð frá 2019. „Það er aðallega gert með mjög hógværum útgjaldavexti. Á tekjuhlið eru einu boðuðu breytingarnar skattlagning ökutækja og umferðar Það er til þess að koma til móts við lækkun skatttekna vegna lægri gjalda á rafmagnsbíla.“
Sambandið vill styrkja tekjustofna ríkisins með ýmsum leiðum sem það segir geta bæði aukið aðhald í ríkisfjármálum sem og skapað svigrúm til að ráðast í nauðsynlegar velferðarumbætur og fjárfestingu í innviðum. Hægt væri að færa skattlagningu fjármagns nær skattlagningu launatekna sem og að koma í veg fyrir skattasniðgöngu í formi tekjutilflutnings sem „viðgengst í núverandi kerfi og dregur úr skatttekjum um 3-8 milljarða árlega,“ segir í umsögninni.
Þá telur ASÍ mikilvægt að mótaður sé skýr rammi um auðlindagjöld sem byggja á þeirri rentu sem verður til við nýtingu auðlinda sem og að skattleggja starfsemi sem felur í sér neikvæð ytri áhrif. Dæmi um slíkt væri komugjald í ferðaþjónustu. Það gæti skila sjö til tíu milljörðum árlega. Að auki telur ASÍ þörf á að lækkun bankaskatts verði dregin til baka. Skatturinn var lækkaður árið 2020 úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna.