Rúmt hálft ár er liðið af öðru kjörtímabili þar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur situr að völdum á Íslandi. Staða sumra stjórnmálaflokka hefur breyst umtalsvert á síðustu fjórum árum.
Samkvæmt könnun Gallup, sem sýndi fylgi stjórnmálaflokka í marsmánuði, mældist fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja; Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna alls 52,1 prósent um sex mánuðum eftir að kosið var síðast.
Fyrsta ríkisstjórn þessara flokka var mynduð eftir kosningar í lok október 2017. Sex mánuðum eftir að þær voru yfirstaðnar mældist samanlagt fylgi flokkanna þriggja 49 prósent, sem þýddi að minna en helmingur þjóðarinnar sagðist vilja kjósa þá á þeim tímapunkti.
Alls sögðust 58,2 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina í lok aprílmánaðar 2018 en í nýjustu könnun Gallup, sem sýndi stöðuna sex mánuðum eftir síðustu þingkosningar sem leiddu til þess að ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað, mældist stuðningurinn við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur 61 prósent.
Þessar tölur benda til þess að stjórnin standi styrkari fótum þegar sex mánuðir eru liðnir af öðru kjörtímabili hennar við völd en hún gerði þegar sami tími var liðinn af fyrsta valdatímabili hennar.
Vert er að taka fram að könnun sem Maskína birti í vikunni sem var að líða sýnir að staða stjórnarflokkanna hafi versnað umtalsvert allra síðustu daga, eftir að hneykslismál tengd bankasölu og Búnaðarþingi komu upp á yfirborðið. Í þessari samantekt er hins vegar einungis stuðst við niðurstöður úr könnunum Gallup.
Nýtt valdajafnvægi
Valdajafnvægið innan ríkisstjórnarinnar hefur þó breyst á þessum tíma. Framsóknarflokkurinn vann mikinn kosningasigur í síðustu kosningum og fjölgaði þingmönnum sínum um fimm í 13. Þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokksins stóð í stað, og jókst reyndar um einn eftir kosningar þegar Birgir Þórarinsson hoppaði um borð frá Miðflokknum. Vinstri græn töpuðu þremur þingmönnum frá kosningunum 2017 en tveir þeirra, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, yfirgáfu flokkinn reyndar á kjörtímabilinu.
Samfylkingin á mun verri stað
Þegar hálft ár var liðið af síðasta kjörtímabili virtist það fyrst og síðast vera Samfylkingin sem var að vaxa skarpt á meðal stjórnarandstöðuflokka. Hún hafði fengið 12,1 prósent atkvæða í kosningunum 2017 en mældist með 17,7 prósent fylgi í lok apríl 2018. Enginn flokkur hafði bætt jafn miklu við sig og hún á fyrstu sex mánuðum kjörtímabilsins.
Nú er staðan önnur. Samfylkingin dalaði skarpt í fylgi þegar leið á síðasta kjörtímabil og endaði með því að fá einungis 9,9 prósent atkvæða. Hún hefur ekki hresst mikið síðan þá og mælist nú með 11,2 prósent fylgi, sem er enn minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2017.
Píratar eru sá stjórnarandstöðuflokkur sem bætt hefur mestu við sig á þessu kjörtímabili samkvæmt könnun Gallups en flokkurinn mælist nú með 11,9 prósent fylgi eftir að hafa fengið 8,6 prósent í kosningunum í september 2021.