Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru fimm heilir þingfundadagar eftir á þessu vorþingi. Þrátt fyrir þennan stutta tíma sem á að vera eftir er ekki farið að semja milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok. Kjarninn fer yfir stöðu mála á þinginu.
Auk þessara fimm þingfundadaga sem eftir eru samkvæmt áætlun er búið að bæta við þingfundi eftir hádegið á morgun, en morgundagurinn átti upphaflega ekki að vera þingfundadagur. Eftir morgundaginn hefjast svo allir þingfundir sem eftir eru klukkan 10 á morgnanna, sem gefur meiri tíma til þingfundastarfa á hverjum degi en oftast. Þrátt fyrir það virðist ljóst að ekki mun takast að klára störf þingsins innan þessa ramma. Stjórnarliðar hafa tjáð sig um það að áfram verði fundað, ekki síst hefur þetta heyrst á máli Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, enda á hún fjögur stór mál sem ýmist eru nýkomin inn í þingið eða eiga enn eftir að gera það.
Allar fastanefndir þingsins funda í dag og fjórar munu funda aftur á morgun. Væntanlega munu nefndirnar afgreiða þónokkur mál á þessum fundum, en 82 mál eru nú í nefndum eftir fyrstu umræðu á þinginu. Fyrir liggur að mörg þeirra munu ekki fara úr nefndum, meðal annars hefur verið tilkynnt að mál stjórnarinnar eins og náttúrupassinn verða ekki kláruð. 23 mál hafa verið afgreidd úr nefndum og bíða annarrar umræðu í þinginu og 5 mál bíða þriðju umræðu.
Þá eru ótalin málin sem búið er að boða að komi inn í þingið en hafa enn ekki litið dagsins ljós. Tvö þessara mála eru eins og fyrr segir húsnæðismál húsnæðismálaráðherrans, sem mikill styr hefur staðið um undanfarna daga. Þá hafa ráðherrar boðað frumvörp tengd haftamálum, meðal annars um stöðugleikaskatt. Þá á eftir að koma í ljós hver aðkoma stjórnvalda að kjaradeilunum verður, og hvernig sú aðkoma kemur þá til kasta þingsins.