Mikill hiti var í þingmönnum í fyrstu óundirbúnu fyrirspurninni á Alþingi í morgun þegar Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins og innviðaráðherra hvort stuðningur væri innan ríkisstjórnarinnar við tillögur Lilju Alfreðsdóttur varaformanns Framsóknarflokksins og menningar- og viðskiptaráðherra sem hún talaði um í fjölmiðlum í febrúar síðastliðnum.
Logi rifjaði upp orð Lilju en hann sagði að hún hefði verið „býsna yfirlýsingaglöð“ í fjölmiðlum varðandi hugsanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta stöðu fólks sem á í erfiðleikum vegna erfiðra efnahagsaðstæðna.
Kjarninn greindi meðal annars frá því að Lilja teldi að vaxtamunur væri orðinn of mikill á Íslandi, að bankar landsins ættu að lækka vexti á lánum heimila og fyrirtækja í ljósi þess sem hún kallaði ofurhagnað þeirra.
„Ég tel óábyrgt að ríkissjóður borgi allan reikninginn fyrir faraldurinn og tel að bankarnir eigi að styðja við þau heimili og fyrirtæki, sér í lagi í ferðaþjónustu, sem koma einna verst út úr faraldrinum. Þá vísa ég í þá samfélagslegu ábyrgð sem fjármálastofnanir í landinu þurfa að sýna þegar vaxtastigið er farið að hækka.“ Gerðu bankarnir það ekki sjálfir gæti þurft að „endurvekja bankaskatt, eins og við gerðum á sínum tíma, til að dreifa þessum byrðum,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið þann 10. febrúar.
Hún sagði enn fremur á Sprengisandi þann 13. febrúar að hún vildi mögulega láta leggja á hvalrekaskatt. „Ef það er ofsagróði eða ofurhagnaður hjá einhverjum aðilum, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varðandi sjávarútveginn. Þar sem við sáum ofurhagnað í einhverjum greinum þá á að skattleggja það,“ sagði Lilja meðal annars.
Tillögur varaformanns „virtust engan hljómgrunn hafa hjá samstarfsflokkunum“
Logi sagði í fyrirspurn sinni að hún hefði sagt að ríkisstjórnin hefði greint stöðuna mjög vel og verið meðvituð um að ákveðnir hópar myndu lenda í vandræðum vegna hækkandi vaxta og verðbólgu og fullyrti að ráðist yrði í efnahagsaðgerðir. „Hún lagði meðal annars til að ofurhagnaður einstakra greina, til dæmis í sjávarútvegi, yrði skattlagður, að bankar mundu nýta hagnað sinn til að niðurgreiða vexti á íbúðalánum ellegar yrði lagður á hærri bankaskattur og að beita ætti vaxtabótakerfinu af meiri þunga.
Þetta var nýr og hressandi tónn sem við í Samfylkingunni vorum nokkuð ánægð með enda teljum við nauðsynlegt að ráðast í sértækar aðgerðir til að mæta þeim heimilum sem fá núna skell með hækkun vaxta og verðbólgu. Það er ekki ólíklegt að þetta muni ýkjast núna með ófriðartímum í Úkraínu. Við höfum raunar lagt fram þingsályktunartillögu ásamt öðrum flokkum stjórnarandstöðunnar um þetta,“ sagði Logi.
Hann benti á að Lilja hefði fullyrt á Sprengisandi að þessar hugmyndir nytu stuðnings formanns hennar og þingflokks og að Framsóknarflokkurinn myndi ráðast í að afla þessum tillögum stuðnings innan hinna ríkisstjórnarflokkanna.
„En eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að þessar tillögur varaformanns Framsóknarflokksins virtust engan hljómgrunn hafa hjá samstarfsflokkunum, hvorki Sjálfstæðisflokknum né Vinstri grænum,“ sagði hann og spurði hvort þetta hefðu verið innstæðulausar yfirlýsingar hjá varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins eða styddi hann og þingflokkurinn þær eins og hún fullyrti.
„Hefur Framsóknarflokkurinn lagt þessar hugmyndir fram við ríkisstjórnarborðið eða hefur þeim þegar verið hafnað þar?“ spurði hann.
Bankarnir tekið tillit til þess sem Lilja sagði
Sigurður Ingi svaraði og þakkaði Loga fyrir að taka upp stefnu og sjónarmið þeirra Framsóknarmanna.
„Við sem erum í stjórnmálum, hvort sem við erum þingmenn eða ráðherrar, eigum að sjálfsögðu að tjá okkur um það hvað okkur finnst og hvert við eigum að stefna. Það sem hæstvirtur ráðherra sagði var að á þeim tímum þar sem bankarnir högnuðust verulega – ég held að hún hafi talað um að það væri mikill gróði, sem menn geta auðvitað bara velt fyrir sér í stóra samhengi hlutanna. En það er engin spurning að það voru miklir fjármunir. Þá hvatti hún bankana. Hún hvatti bankana til að skila hluta af þessum fjármunum til viðskiptavinanna. Og hvað gerðist?“ spurði hann. Þingmenn gripu fram í fyrir ráðherranum og sögðu að þeir hefðu einmitt hækkað vexti.
Sigurður Ingi hélt áfram og sagði að ef bankarnir myndu ekki skila hluta af þessum fjármunum til viðskiptavina væri þingið með tæki.
„Það væri hægt að leggja á bankaskatt að nýju og hækka skatta, arðgreiðslur eða eitthvað slíkt. En bankarnir hækkuðu ekki. Þeir hækkuðu ekki vextina í samræmi við stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Þeir tóku með öðrum orðum tillit til þess sem viðskiptaráðherra sagði og fóru algjörlega eftir því sem viðskiptaráðherra sagði. Þannig að það hefur ekki komið til þess að við höfum farið að beita þeim aðgerðum að refsa bönkunum. Við þurfum hins vegar að halda áfram að fylgjast með, háttvirtur þingmaður, og ég veit að við deilum þeirri skoðun. Við þurfum að fylgjast með þeim hópum sem verða augljóslega fyrir meiri áhrifum af verðbólgunni, af stighækkandi verðlagi og þeim aðstæðum sem geta komið upp, hvort sem það er á húsnæðismarkaði eða annars staðar.“ Hann sagðist vera sammála Loga varðandi það.
Auðvitað hækkuðu bankarnir vexti
Logi kom aftur í pontu og sagði að ráðherrann færi í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut.
„Auðvitað hækkuðu bankarnir vexti, Landsbankinn um 0,5 prósent af þessum 0,75 prósentustigum sem hækkað var um. En það sem var áhugavert hjá ráðherranum var að hann talaði um að þingið hefði tæki. Hann talaði ekki um að ríkisstjórnin hefði tæki, vegna þess að vissulega kann að vera meirihluti hér á þingi þó að það sé ekki meirihluti í ríkisstjórninni fyrir þessum tillögum.“
Hann spurði í framhaldinu hvort þau sjónarmið hans nytu stuðnings um að beita ýtrustu úrræðum til að koma á móts við viðkvæmustu hópana.
„Nýtur það stuðnings innan hinna ríkisstjórnarflokkanna? Ef ekki, mun hann þá koma með málið sjálfur til þingsins þannig að þingið geti tekið ákvörðun um hvað eigi að gera, og í hvaða aðstæðum er ríkisstjórnin þá? Hæstvirtur ráðherra verður bara á þessari mínútu sem eftir er að svara spurningunni: Styðja samstarfsflokkarnir tillögu ráðherra og mun hann koma með þetta til þingsins ef hún nýtur ekki stuðnings innan ríkisstjórnarinnar?“ spurði þingmaðurinn.
Forseti bað þingmenn að gefa ráðherranum hljóð
Ráðherrann svaraði í annað sinn og sagði að það gengi ekki upp hjá Samfylkingunni og þingmönnum að koma „hér æpandi út alla daga og tala um að vaxtastigið sé eitthvað óvenjuhátt í þessu landi þegar staðreyndin er sú ...“
Ráðherrann varð að gera hlé á máli sínu þar sem þingmenn byrjuðu að hrópa í þingsalnum. Ekki mátti vel greina orðaskil og bað ráðherrann forseta Alþingis, Birgi Ármannsson, um aðstoð svo hann gæti lokið máli sínu. Birgir bað þingmenn að gefa ráðherranum hljóð til að svara.
„Og þetta er þannig að vextir eru ekki mjög háir á Íslandi þó þeir hafi hækkað. Og það sem háttvirtur þingmaður sagði hérna; Já, Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,75 en bankarnir hækkuðu bara um 0,4 eða 0,5. Með öðrum orðum var vaxtamunurinn minni en hann var áður,“ sagði Sigurður Ingi.
Framíköll þingmanna héldu áfram en ráðherrann hélt áfram máli sínu. „Og þar af leiðandi hefur það orðið staðreynd að bankarnir hlustuðu eftir því sem viðskiptaráðherrann sagði og fóru eftir því.“
Segir sannleikann særa
Vart mátti heyra hvað ráðherrann sagði og sló forseti þingsins af alefli í bjölluna og sagðist verða að biðja þingmenn að gefa ræðumanni hljóð til þess að ljúka máli sínu. „Það gengur ekki að hér séu fimm þingmenn ...“ Framíköllin héldu áfram og sló hann aftur í bjölluna. „Forseti verður að biðja þingmenn að sýna ræðumönnum þá virðingu og þingsköpunum að hafa hljóð meðan ræðumaður lýkur máli sínu en ekki fjórir fimm að tala úr sæti sínu í einu,“ sagði Birgir.
Sigurður Ingi sagði í framhaldinu að hann langaði að segja við Loga og við þá sem „galað“ hefðu hæst að það væri þannig að þegar menn heyra sannleikann þá yrðu menn sárir. „Staðreyndin er þessi: Bankarnir hlustuðu! Staðreyndin er þessi: Vaxtastigið í landinu er lægra heldur en oft áður. Staðreyndin er líka þessi: Verðbólgan vex og við þurfum að vera á vaktinni. Og við verðum tilbúin til þess í ríkisstjórninni og ég veit að margir hér í þinginu verða tilbúnir að vera með okkur í því,“ sagði hann að lokum.