Evgeny Gavrilenkov, aðalhagfræðingur fjárfestingabankaarms rússneska bankans Sberbank CIB, hefur varað við því að þær aðgerðir sem rússnesk stjórnvöld hafa ráðist í til að bjarga rússneskum bönkum sem eiga í miklum vandræðum, gætu leitt til risavaxinnar bankakreppu.SberBank CIB er stærsti lánveitandi Rússlands.
Í frétt á vef Business Insider er haft eftir honum að ef seðlabanki Rússlands heldur áfram að endurfjármagna banka í skiptum fyrir skuldabréf sem enginn markaður er fyrir, en bankarnir geti framleitt í nánast ótæmandi magni, þá muni það leiða til bankakreppu af stærstu gerð.
Munu ekki geta endurgreitt lán
Þetta er staða sem er Íslendingum að nokkru kunnug. Í aðraganda bankahrunsins sem átti sér stað hérlendis í október 2008 dældu íslensku bankarnir skuldabréfum gefnum út af sjálfum sér inn í Seðlabanka Íslands í skiptum fyrir lausafé. Þegar þeir voru búnir með kvótann þá fengu þeir smærri fjármálafyrirtæki til að vera milligönguaðilar gegn þóknun. Þessi svokölluðu ástarbréfaviðskipti enduðu með ósköpum og því að íslenska ríkið þurfti að taka yfir miklar skuldir Seðlabankans.
Í kjölfar þeirrar miklu efnahagslægðar sem lagst hefur yfir Rússland undafarið vegna hríðlækkandi olíuverðs og falls rúblunar um yfir 40 prósent á þessu ári hefur rússneski Seðlabankinn ákveðið að styðja við bakið á bönkum landsins með þvi að veita þeim umfangsmikla lausafjárfyrirgreiðslu gegn veðum, meðal annars í skuldabréfum þeirra.
Í síðustu viku hækkaði seðlabankinn hins vegar stýrivexti sína í 17 prósent og við það hækkuðu vitanlega lánin sem rússnesku bankarnir hafa tekið hjá honum. Gavrilenkov telur að bankarnir muni ekki geta greitt til baka þau lán sem þeir hafa tekið hjá seðlabankanum og að veðin sem sett hafi verið fyrir lánunum séu ekki nægilega góð til að geta brúað fyrirsjáanlegt tap seðlabankans.
Ummæli Gavrilenkov eru óvenjuleg, enda er um að ræða hvassa gagnrýni á efnahagsstefnu rússneskra stjórnvalda. Það er ekki mikil hefð fyrir slíkri á undanförnum árum í Rússlandi undir stjórn Vladimír Pútins.
Neytendur hamstra neysluvörur
Staðan í Rússlandi er að verða verri og verri með hverjum deginum sem líður. Vegna þess að rúblan er í frjálsu falli þá hefur almenningur reynt að binda fé sitt í einhverju sem tapar ekki virði, meðal annars dýrri neysluvöru á borð við húsgögn, bíla eða farsíma.
Rússneskur almenningur hefur verið að hamstra varning.
Stórir framleiðendur neysluvara, á borð við Apple og Ikea, hafa brugðist við með því að hækka verð á vörum sínum sem eru seldar í Rússlandi mikið og hætt við allar fyrirhugaðar útsölur. Bílaframleiðendurnir General Motores, Jaguar, Land Rover og Audi hafa stöðvað sendingar með nýjum bílum sem ætlaðar voru á Rússlandsmarkað og Apple hefur lokað vefverslun sinni fyrir Rússum eftir að 25 prósent hækkun á útsöluverði á iPhone 6 dró ekkert úr eftirspurn eftir honum.