Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta af 100 milljón króna hlutafjáraukningu sem framkvæmd var í Þórsmörk, eiganda útgáfufélagsins Árvakurs sem heldur úti Morgunblaðinu, mbl.is og K100, þann 31. janúar síðastliðinn.
Þetta má lesa út úr uppfærðum lista yfir eigendur útgáfufélagsins sem birtur var í gær á vef Fjölmiðlanefndar. Í lögum um fjölmiðla segir að við sölu á hlut í fjölmiðli beri að tilkynna um hana „innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“ til Fjölmiðlanefndar sem birtir svo uppfærðar upplýsingar á vef sínum. Á fimmtudagskvöld voru upplýsingar um eignarhald útgáfufélagsins sem þar voru aðgengilegar voru síðast uppfærðar 17. júlí 2020. Það breyttist svo í gær, rúmum tveimur mánuðum eftir að hlutafjáraukningin átti sér stað.
Stærsti eigandinn fyrir síðustu hlutafjáraukningu voru Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt átti sá hópur 25,5 prósent hlut. Þau greiddu samtals um þriðjung aukningarinnar og eiga nú 28,04 prósent.
Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut. Félagið varði þann eignarhlut í aukningunni og lagði Þórsmörk því til 19,5 milljónir króna.
Aðrir hluthafar, sem flestir koma úr sjávarútvegi, annað hvort vörðu hluti sína eða tóku ekki þátt. Þar á meðal er félag í eigu Eyþórs Arnalds, núverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, sem átti 13,4 prósent hlut áður. Það keypti ekki nýtt hlutafé og þynntist fyrir vikið niður í 12,08 prósent.
600 milljónir á þremur árum
Hlutafjáraukningin sem framkvæmd var í janúar er sú þriðja frá árinu 2019. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar.
Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna á þremur árum.
Frá því árinu 2009 og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 18,6 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en á síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur.