Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í síðustu viku breytingar á deiliskipulagi á lóðinni Borgartún 34-36, sem fólu í sér að eldra skipulagi frá 2017 var breytt lítillega, byggingarmagnið aukið og hámarksfjöldi íbúða í stórhýsi sem þar stendur til að byggja aukinn úr 86 upp í 100, þrátt fyrir að húsið verði einni hæð lægra en áður stóð til, eða á 4-8 hæðum í stað 4-9 hæða, eins og heimilt var samkvæmt eldra skipulagi reitsins.
Á lóðinni, sem er fyrir aftan Hótel Cabin, er í dag atvinnuhúsnæði sem byggt var á sjötta og til áttunda áratug síðustu aldar. Vélsmiðjan Afl lét reisa þar skemmu með skáburstaþaki árið 1958 sem ferðaþjónustu fyrirtækið Guðmundur Jónasson hf. keypti árið 1961 og flutti fyrirtækið í kjölfarið höfuðstöðvar sínar þangað. Guðmundur Jónasson reisti svo steinsteypt hús á lóðinni árið 1978, sem í dag er fjögurra hæða hátt. Einnig er á lóðinni tvílyft hús sem byggt var 1964 og hýsti Vélsmiðju Ögmundar Jónassonar.
Allt húsnæði á lóðinni verður rifið til þess að rýma fyrir nýja fjölbýlishúsinu, en því hefur lítt verið haldið við á undanförnum árum og lóðin að miklu leyti nýtt sem geymslusvæði undir bifreiðar af hinum ýmsu gerðum.
Nýja húsið mun breyta ásýnd svæðisins mjög, en gert er ráð fyrir að það verði byggt í hálfhring utan um sameiginlega skjólgarð fyrir miðju. Bílastæði verða að mestu leyti neðanjarðar, en í skipulagstillögunni segir að um 80 prósent bílastæða geti verið í bílageymslunni.
Tugir nágranna mótmæltu hæð hússins
Þrátt fyrir að heimildir hafi verið til staðar í eldra í skipulagi fyrir enn hærri byggingu, lutu flestar innsendar athugasemdir nágranna að því að hæð byggingarinnar væri of mikil.
„Við teljum að svo há bygging og margar íbúðir skapi óviðunandi þrengsli af ýmsu tagi fyrir þá sem þegar búa á þessu svæði. Við óskum eftir að ekki verði reist hærri bygging en sex hæðir á umræddri lóð,“ sagði í skilaboðum sem 58 íbúar í nærliggjandi húsum við Sóltún skrifuðu nafn sitt við.
Íbúar í Sóltúni 11 sem sendu inn umsögn sögðu jákvætt að hæsti punktur yrði lækkaður um eina hæð, en töldu það ekki nóg. „Rétt væri að fækka íbúðum og að hæsti punktur yrði 6 hæðir sem svo stallaðist niður í fjórar hæðir,“ sagði í umsögn þeirra. Sömu íbúar sögðu aukna umferð um Sóltúnið skapa óþægindi fyrir alla íbúa, og væru þau þó næg fyrir, mótmæltu þessu gífurlega byggingarmagni og sögðu það engum til góðs „nema ef vera skyldi borgarsjóði og handhöfum lóða“ og nefndu skuggavarp og vindstrengi, máli sínu til stuðnings.
Einnig töldu íbúarnir „galið“ að áform væru um það að nýta jarðhæð hússins að hluta undir verslun og aðra þjónustu. „Verslun er að færast æ meira á netið og miðað við smæð okkar standa smáverslanir og smærri þjónustufyrirtæki ekki undir sér ef gert er ráð fyrir þeim í hverjum byggingarkjarna. Hvers vegna þarf að blanda verslunum og þjónustu inn í íbúðarhús? Hvar eiga viðskiptavinir að leggja? Á bílastæðum nærliggjandi húsa?“ sögðu íbúarnir.
Einnig nefndu þeir að íbúar í nærliggjandi húsum hefðu „verulegar áhyggjur af ásókn í bílastæði sem tilheyra þeirra húsum“ vegna fyrirliggjandi skipulagstillögu að Borgartúni 34-36.
Í svörum frá embætti skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er athugasemdum um hæð bygginga svarað með þeim hætti að verið sé að lækka húsið frá gildandi skipulagi og athugasemdum um að fjöldi þeirra sé of mikill svarað með þeim hætti að breytingin, og hið aukna byggingarmagn ofanjarðar sem stefnt sé að, mæti betur markmiðum skipulags um fjölbreytta samsetningu íbúðagerða og nefnt að stærðir íbúða í fyrirhuguðu húsi yrðu „allt frá minni eignum fyrir einstaklinga eða fyrstu kaupendur upp í stórar fjölskylduíbúðir,“ sem væri til þess fallið að auka „möguleika á flutningi innan hverfisins“.
Athugasemdum um umferðarálag í Sóltúninu var svarað með þeim hætti að lóðin væri staðsett austast í hverfinu og aðkoma akandi umferðar frá Borgartúni væri næst lóðinni, sem ætti því „ekki að vera óþægilega íþyngjandi.“
„Garðrými hússins er beintengt við göngu- og hjólastígakerfið svo skólabörn komist á göngustígakerfið og að brúnni gegnum garðinn og þau fara því ekki yfir götu fyrr en við Helgateig. Vegna nálægðar við megin atvinnusvæði borgarinnar eru íbúar hússins og hverfisins í heild líklegir til að velja umhverfisvæna samgöngumáta,“ segir svo í umsögn skipulagsfulltrúa, um áhyggjur sem settar voru fram af öryggi barna í umferðinni.