Matsfyrirtækið Standard og Poor's (S&P) hefur samþykkt að greiða 1,38 milljarða bandaríkjadala sáttargreiðslu til stjórnvalda sem kærðu fyrirtækið fyrir að hafa gefið út uppblásið verðmat á húsnæðislánaverðbréfum (mortage-backed securities) og öðrum eignum í húsnæðisbólunni, og með því stuðlað að fjármálakreppunni. Fréttamiðillinn USA Today greinir frá málinu.
Samkvæmt samkomulaginu greiðir S&P hátt í 688 milljónir bandaríkjadala til bandaríska dómsmálaráðuneytisins, og sömu upphæð til nítján fylkja og Washington D.C. Aldrei fyrr hefur matsfyrirtæki greitt jafn háa upphæð í formi sektargreiðslu.
Mat Standard & Poor's litað af hagsmunaárekstrum
Á árunum 2004 til 2007, fullyrti S&P ranglega að mat fyrirtækisins á húsnæðislánaverðbréfum og afleiðum væri hlutlaust og sjálfstætt. Í raun var mat fyrirtækisins litað af hagsmunaárekstrum, sér í lagi vilja S&P til að auka tekjur sínar með því að gefa út heilbrigðisvottorð á skuldirnar sem bankarnir voru að selja, að því er fram kemur í málflutningi bandaríska dómsmálaráðuneytisins.
Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að yfirstjórn S&P hafi ítrekað hunsað áhyggjur helstu sérfræðinga fyrirtækisins um að það hefði gefið út toppeinkunnir á fjármálaafurðir sem stæðu ekki undir þeim. Á meðan þessi stjórnun hafi hjálpað S&P að halda viðskipavinum sínum ánægðum, það er fjármálafyrirtækjunum, hafi athæfið stórskaðað hagkerfi Bandaríkjanna og stuðlað að verstu fjármálakreppu í landinu síðan í kreppunni miklu.
Sáttargreiðslusamkomulagið, sem tilkynnt var um í dag, leit dagsins ljós eftir margra mánaða samningafundi. Nú þegar eru uppi gagnrýnisraddir um að í samkomulaginu sé ekki að finna klausu þar sem S&P viðurkennir að hafa brotið lög.
Lítið og lélegt
Viðskiptalögfræðingurinn Andrew Stoltmann gagnrýnir þetta mjög, í umfjöllun USA Today, og segir S&P sleppa allt of auðveldlega frá borði. Sektin hafi ekki verið nægilega há til að draga úr hættu á samskonar hegðun í framtíðinni.
Í þessari viku verða liðin tvö ár frá því að bandaríska dómsmálaráðuneytið kærði S&P fyrir svik, og sakaði fyrirtækið um að hafa látið undir höfuð leggjast að vara fjárfesta við yfirvofandi hruni húsnæðismarkaðarins, til að skaða ekki afkomu sína.
Dómsmálaráðuneytið krafðist þess upphaflega að S&P yrði dæmt til að greiða fimm milljarða Bandaríkjadala í sekt fyrir athæfi sitt, en sáttargreiðslufjárhæðin nú upp á tæpa 1,4 milljarða dala er lægri en sem nemur tekjum S&P á árinu 2013. Þá námu tekjur Standard og Poor's tæpum 2,3 milljörðum Bandaríkjadala.
Fleiri málshöfðanir í undirbúningi?
Sérfræðingar segja að málaferli bandarískra yfirvalda gegn S&P gefi forsmekkinn að frekari málshöfðunum gegn hinum stóru matsfyrirtækjunum, Fitch og Moody's. Matsfyrirtækin þrjú hafa nefnilega öll verið sökuð um að kynda undir fjármálakreppuna með því að gefa út heilbrigðisvottorð á eitruð húsnæðislán sem bankarnir seldu svo lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Sömu matsfyrirtækin gáfu ítrekað út heilbrigðisvottorð á íslensku bankana, og því má velta fyrir sér réttarstöðu íslensku lífeyrissjóðanna og annarra hluthafa í bönkunum í þessu sambandi.
Þegar málið hófst vísaði S&P öllum ásökunum um ámælisverð vinnubrögð á bug, og sagði þær innistæðulausar og „einfaldlega ósannar.“