Árið 2013 störfuðu 2.238 manns í fjölmiðlun á Íslandi. Í fyrra voru þeir tæplega 876 talsins. Fækkunin hefur ágerst hratt á síðustu árum. Frá árinu 2018 og fram að síðustu áramótum fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns.
Þetta kemur fram í nýbirtum Menningarvísum Hagstofu Íslands. Tekið er sérstaklega fram að starfandi teljist þeir sem starfa í aðal- og aukastarfi í greininni en að þekja sjálfstætt starfandi sé ekki fullkomin í tölunum.
Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma, árleg summa staðgreiðsluskyldra launagreiðslna launafólks, einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Árið 2018 var launasumman 8,1 milljarður króna. Í fyrra var hún hins vegar komin niður í 5,3 milljarða króna og hafði því dregist saman um 35 prósent á tveimur árum.
Mikil umræða en litlar aðgerðir
Bág rekstrarstaða fjölmiðla hefur verið til umræðu hérlendis árum saman. Árið 2016 var skipuð nefnd til að fjalla um vandann, svo var rituð skýrsla sem skilað var rúmum tveimur árum síðar með sjö tillögum til úrbóta, þá var unnið úr tillögum hennar og loks smíðuð frumvörp.
Til viðbótar við ofangreint hefur það haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla að auglýsingatekjur hafa flætt frá hefðbundnum íslenskum miðlum til alþjóðlegra samfélagsmiðla- og netfyrirtækja sem greiða ekki skatta af þeim tekjum hérlendis.
Styrkjafrumvarpið svokallaða var samþykkt í síðasta mánuði og úrræðið gildir í tvö ár. Þær breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðförum þingmanna að upphæðin sem hvert fjölmiðlafyrirtæki getur fengið var tvöfölduð, úr 50 í 100 milljónir króna, án þess að heildarupphæðin sem er til úthlutunar hafi hækkað samhliða. Fyrir vikið færðust yfir 100 milljónir króna frá yfir 20 minni fjölmiðlafyrirtækjum til þriggja fjölmiðlafyrirtækja: Árvakurs, Sýnar og Torgs, sem gefur út Fréttablaðið. Þessi þrjú fyrirtæki fá tvær af hverjum þremur krónum sem úthlutað er.
Fjölmiðlafrelsi á Íslandi dregst hratt saman
Stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla er umtalsverður á hinum Norðurlöndunum.
Í vísitölu samtakanna Blaðamanna án landamæra raða þau sér í efstu sætin yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjölmiðlafrelsi. Noregur er í fyrsta sæti, Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista samtakanna og féll um eitt sæti á milli ára.
Mestur er stuðningurinn í Noregi, því landi þar sem fjölmiðlafrelsi mælist mest í heiminum. Þar er enn fremur vilji til að auka við opinbera styrki frekar en að draga úr þeim enda hefur reynslan af þeim verið jákvæð. Hinn 7. mars 2017 skilaði nefnd sem skipuð var af norskum stjórnvöldum hvítbók sem innihélt tillögur til að efla fjölmiðla þar í landi. Meðal þeirra tillagna sem settar voru fram í hvítbókinni var að auka styrkveitingar til smærri fjölmiðla, einfalda umsóknarferlið og gæta jafnræðis milli fjölmiðla óháð því hvernig efni er miðlað.
Tillögurnar eru enn til meðferðar hjá norskum stjórnvöldum.