Auglýsing

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en að þeim stjórnmálamönnum sem ráða í samfélaginu okkar líki við þá stöðu sem er uppi á fjölmiðlamarkaði. Í á fimmta ár hafa þeir dinglað gulrót um smávægilega styrki fyrir framan einkarekna fjölmiðla. Eina skiptið sem þeir hafa verið greiddir út var í fyrra þegar þeim var breytt í eins árs kórónuveirustyrk og fyrirkomulag þeirra haft þannig að meginþorri upphæðarinnar fór til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna sem eru öll að glíma við samanlagðan botnlausan taprekstur á fjölmiðlaeiningum sínum. Peningarnir fara því ekki til að ráða nýtt fólk eða hækka laun þeirra sem eru fyrir, heldur í hítina. 

Í desember lagði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, enn og aftur, fram styrkjafrumvarp sitt. Það er eina úrræðið sem lagt hefur verið fram í stjórnartíð hennar í ráðuneytinu til að styrkja fjölmiðlaumhverfið, þótt að upphaflega hafi það átt að vera ein af fjölmörgum aðgerðum sem áttu að virka samhangandi til að laga umhverfið heildrænt. Eitt og sér gerir styrkjafrumvarpið enda lítið. Það var ætlað fyrir litla og vaxandi miðla, ekki til að plástra ónýt rekstrarmódel stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins.

Í frumvarpi Lilju var þó áfram haldið í það plásturs-fyrirkomulag sem sett var upp í fyrra þegar styrkjakerfinu var breytt í einskiptis kórónuveirufaraldursstyrk: að Árvakur, Torg og Sýn áttu að fá þorra þessarra peninga. 

Fyrirsjáanleikinn fjarlægður

Það eina góða í frumvarpinu, sem verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi í dag, sem hélt sér var að það gaf þeim sem reka fjölmiðlafyrirtæki fyrirsjáanleika með nokkurra ára gildistíma. Nú, þegar frumvarpið hefur verið afgreitt úr nefnd eftir margra mánaða svefn þar inni, hefur sá hluti verið fjarlægður og það á einungis að gilda til eins árs. Tilgangurinn er augljóslega sá að halda fjölmiðlum í spennitreyju og endurtaka þennan þreytta leik aftur að ári. Henda brauðmylsnu. Setja á svið leikþætti um áhuga en láta síðan vilja handfylli þingmanna Sjálfstæðisflokks, sem skilja lítið um eðli fjölmiðla heldur líta á þá sem valdatól, ráða niðurstöðunni.

Á meðan molnar undan alvöru fjölmiðlun í landinu, atgervisflóttinn heldur áfram, Ísland fellur á alþjóðlegum listum yfir fjölmiðlafrelsi og geta frjálsra fjölmiðla sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í umfjöllun sinni til að takast á við hagsmunahópanna sem ráða öllu á Íslandi verður meiri brekka.

Hagsmunaaðilarnir sem eiga dagblöðin

Innkoma Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra inn í hagsmunahópastríðið nýverið í eldfimu viðtali þar sem hann sagði að Íslandi væri „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiriháttar mál að lenda uppi á kant við þá“ fór ekki framhjá mörgum. Og hefur verið rakin á þessum vettvangi áður.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, fylgdi í kjölfarið og sagði í Kastljósviðtali: „Þetta er raunverulegt vandamál og við þurfum ekki að láta sérhagsmunaöflin sigra alltaf, þó að það sé oftast tilhneiging til þess. Þau eru oftast einbeittari heldur en þeir sem eru að verja almennu hagsmunina. Og oft miklir fjármunir undir sem menn geta lagt í að fá til dæmis einhverjar breytingar á regluverki í gegn sem þjóna hagsmunum eins hóps, en ekki hins breiða fjölda.“ 

Auglýsing
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, tjáði sig líka um þessa stöðu – baráttu þeirra sem vinna með almannahagsmuni að leiðarljósi gegn þeim sem verja þrönga sérhagsmuni – í viðtali í Sprengisandi. Aðspurður hvort að veist væri persónulega að sérfræðingum sem tjá sig um ákveðin mál sagði Gylfi: „Það er smá stríðskostnaður.“ Sérfræðingar hafi ákveðnum skyldum að gegna að rétta upp „rauð flögg“ telji þeir tilefni til. „Stríðskostnaðurinn felist m.a. í því að fá „á sig bunur í dagblöðunum,“ sagði Gylfi. „Þessir hagsmunaaðilar eiga dagblöðin.“ 

Ein mikilvægasta umsögn um styrkjafrumvarp fjölmiðla sem komið hefur fram, og styður orð Gylfa Zoega, er sú sem Samkeppniseftirlitið birti í byrjun árs í fyrra. Þar sagði að hafa yrði í huga að „eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang. Við þessar aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld hagi stuðningi sínum við fjölmiðla þannig að þeir aðilar eða hagsmunaöfl sem hafa úr minni fjármunum að moða geti einnig komið sínum málstað á framfæri.“

Þeir sem eru tilbúnir að tapa milljörðum fyrir tök á umræðu

Hvaða aðilar eru það sem Ásgeir, Gylfi, Gylfi og Samkeppniseftirlitið tala um? Jú, það eru meðal annars útgerðarfyrirtækin sem eiga útgáfufélag Morgunblaðsins að mestu með oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og hafa borgað um 2,5 milljarða króna hið minnsta vegna tapreksturs félagsins á síðasta rúma áratug. Samhliða hefur lestur Morgunblaðsins helmingast.

Svo er um að ræða Helga Magnússon, sem er stjórnarformaður Bláa lónsins, umsvifamikill fjárfestir og kom að stofnun Viðreisnar á sínum tíma. Hann eignaðist Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, á árinu 2019. Helgi hefur mikinn áhuga á að koma sínum tökum á umræðuna. 

Ekki áhersla á „áreiðanlegan og vandaðan fréttaflutning“

Það sást þegar nýr ritstjóri var ráðinn yfir Fréttablaðið. Um var að ræða fyrrverandi bankastjóra með afar takmarkaða reynslu úr fjölmiðlum en umfangsmikla reynslu í að setja fjármálafyrirtæki á hausinn og að tapa milljörðum króna sem það fékk úr opinberum sjóðum.

Það sást líka á þeirri stefnu sem birt var fyrir fjölmiðla Torgs haustið eftir eigendaskiptin. Þar var lítið fjallað um fjölmiðlun, og ekkert um mikilvægi þess að upplýsa almenning. Þess í stað var sagt að hlutverk miðlanna yrði meðal annars að halda fram „borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi. Frelsi verði gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á lofti. Stjórnvöldum á hverjum tíma verði veitt aðhald á öllum sviðum. Sama gildi um dómstóla. Áhersla verði lögð á mikilvægi umhverfisverndar, eflingu atvinnulífsins og samstarf Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi.“

Auglýsing
Ritstjórnarstefnan var mjög frábrugðin þeirri stefnu sem áður var við lýði. Í henni sagði meðal annars að Fréttablaðið legði áherslu á „áreiðanlegan og vandaðan fréttaflutning“, að hafa „sjálft ekki skoðun á neinu máli“, að fjalla um „margar hliðar mála og draga fram ólíkar skoðanir og sjónarmið“ og að vera „.opinn og líflegur umræðuvettvangur fyrir lesendur og birta daglega umræðugreinar frá þeim“. 

Sem sagt: meiri sérhagsmunagæsla, pólitík og áróður. Minni fréttamennska. Allt rekið í bullandi tapi.

Miðað við þær upplýsingar sem eru aðgengilegar í ársreikningum má ætla að Helgi og viðskiptafélagar hans hafi kostað um 1,2 milljörðum króna til nú þegar í þessa viðleitni. Samhliða hafa rekstraraðstæður flaggskips útgáfunnar, Fréttablaðsins, hríðversnað enda lestur þess kominn langt niður fyrir þau sársaukamörk sem hann þolir. 

Ef þú horfir ekki á vandann, þá er hann ekki til 

Nú liggur fyrir að tveir helstu leiðtogar ríkisstjórnarinnar kannast bara ekkert við þá hagsmunahópa sem sumir hverjir eru orðnir svo ríkir og valdamiklir að þeir hafa einhliða ákveðið að aðrar reglur og lög gildi um þá en hina. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að gagnsæi sé „í raun og veru vopnið sem við getum beitt gegn því að einhvers staðar sé verið að beita óeðlilegum þrýstingi.“ Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segist hafa þá trú á stjórnmálum og stjórnmálamönnum að þeir láti ekki allir stjórnast af hagsmunum. „Það væri auðvitað verulega illa fyrir okkur komið ef svo væri.“ 

Bæði kjósa að líta undan, vegna þess að það hentar þeim ekki að horfa beint á vandann sem við blasir.

Þessi afstaða valdamestu stjórnmálamanna landsins er áhugaverð þegar hún er sett í samhengi við það að þeir stjórnarþingmenn sem standa að baki því að keyra styrkjafrumvarp fyrir einkarekna fjölmiðla í gegn í þeirri mynd sem það er í dag, eru að þjónusta þessa hagsmunahópa sem leiðtogarnir þykjast ekki sjá. Bara hreint og beint. 

Og þar með að vinna gegn lýðræðinu í landinu. 

Fjölmiðlar með hnífa í byssubardaga

Þessir hagsmunahópar eru með yfirburðastöðu í samfélaginu, sérstaklega gagnvart fjölmiðlum sem vinna með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hóparnir lifa á gráa svæðinu milli atvinnulífs, stjórnmála og stjórnsýslu. Fólk af öllum þessum sviðum eru beinir þátttakendur í að viðhalda núverandi kerfum.

Lobbýistaarmar þessara hópa eru langtum betur fjármagnaðir en fjölmiðlarnir sem eiga að veita þeim aðhald og geta boðið starfsfólki sínu, margt hvert fyrrverandi fjölmiðlafólk, upp á miklu betri kjör og vinnuaðstæður. 

Hið opinbera hefur byrgt sig upp af upplýsingafulltrúahersveitum sem kosta hundruð milljóna króna á ári til að skrifa „fréttir“ sem eru ekki fréttir heldur að uppistöðu áróður til að láta ráðherra líta vel út. Stjórnmálaflokkar hafa hækkað eigin framlög úr ríkissjóði upp úr öllu hófi og nota þá fjármuni meðal annars til að framleiða efni, t.d. hlaðvörp eða skrifaðar „fréttir“, sem er svo dulbúið sem eðlilegt fjölmiðlaefni.

Svo erum við auðvitað með þá hópa sem eru að framleiða eigið efni til að ráðast á nafngreint fjölmiðlafólk, eins og Samherji. Það fyrirtæki hefur búið til alls 13 myndbönd þar sem vegið er að æru, fagheiðri og framfærslu nafngreindra blaðamanna. Vefur Morgunblaðsins, í eigu útgerðarfyrirtækja, auglýsti áróðurinn dögum saman. Og ritstjórum þess útgáfufélags fannst illa vegið að frelsi auglýsingadeildar sinnar þegar fag- og stéttarfélag blaðamanna, loks undir nýrri og dugandi forystu, fordæmdi þessa einstöku ákvörðun. Milli þess sem þeir stunda pólitískar persónuárásir í nafnlausum dálkum, eins og reiðir menntaskólakrakkar sem þora ekki að standa fyrir máli sínu.

Frelsið á hinum Norðurlöndunum

Frjáls fjölmiðlun mun að óbreyttu deyja á Íslandi. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær. Þar spilar margt inn í. Fyrirferð RÚV er allt of mikil í samhengi við aðra sem starfa á markaðnum. Samfélagsmiðlar og aðrar erlendar efnisveitur, sem borga ekki krónu í skatta á Íslandi, hafa tekið allt of stóra sneið af auglýsingatekjum frá innlendum fréttamiðlum á undanförnum rúma áratug. Ekkert hefur verið gert í því að skapa hvata fyrir úr sér gengin rekstrarmódel stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins að skipta um kúrs og sækja nútímalegri tekjur með nýjum leiðum til að láta notendur greiða fyrir fréttir. 

Þess í stað hafa sérhagsmunahópar greitt fyrir fréttir. Fréttir sem henta oft þeirra sérhagsmunum. Með tilheyrandi samkeppnisbjögun ár eftir ár eftir ár fyrir þá sem reyna að reka sig í sjálfbærni og á réttum forsendum.

Auglýsing
Það er hægt að grípa inn í og breyta þessari stöðu með margháttuðum aðgerðum sem tryggja fjölmiðlum á íslensku rekstrargrundvöll. Það er hægt að styðja við þá alla – stóra sem smáa – með beinum og óbeinum stuðningi, þannig að fjölmiðlaflóran verði fjölbreytt, rekstrarlega sjálfbær, óháð stjórnmálum og komist úr vasa fáveldis fyrirferðamikilla milljarðamæringa sem vilja reka Ísland eins og einkahlutafélag sitt. 

Það er hægt með styrkjakerfi til að styðja litla og vaxandi fjölmiðla. Það er hægt með því að draga úr fyrirferð RÚV á markaði og búa þar með til súrefni fyrir stóru miðlanna. Það er hægt með áskriftarmeðlagsgreiðslum, breytingu á skattlagningu fjölmiðla, uppsetningu samkeppnis- og rannsóknarblaðamennskusjóða og innleiðingu grænna hvata. Allt leiða sem hin Norðurlöndin hafa fyrir löngu ráðist í að hluta eða öllu leyti með þeim árangri að þau státa af því að raða sér í efstu sætin yfir mest fjölmiðlafrelsi í heiminum.

Á sama tíma fellur Ísland, landið sem gerir ekkert, eins og steinn og er nú í 16. sæti, einu á eftir Eistlandi. 

Sagan af tveimur formönnum

Fyrir fimm árum setti formaður stjórnmálaflokks sem þá sat í ríkisstjórn inn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann kallaði fjölmiðla landsins „lítið annað en skel, umgjörð um ­starf­semi þar sem hver fer fram á eigin for­send­um. Engin stefna, ­mark­mið eða skila­boð og þar með nán­ast eng­inn til­gang­ur, ann­ar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast ­síðan á að grípa gjall­ar­hornið sem fjöl­mið­ill­inn er orð­inn ­fyrir þá og dæla út skoð­unum yfir sam­fé­lag­ið. Ein í dag - önnur á morg­un. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegg­inn?“

Formaður stjórnarandstöðuflokks tók þessa stöðuuppfærslu upp í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og sagði þetta þung orð hjá ráðherranum „ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi og annars staðar í hinum vestræna heimi eiga í á tímum tæknibreytinga, á tímum samfélagsmiðla, þar sem tekjustofnar hefðbundinna fjölmiðla hafa veikst þannig að þeir ráða illa við að halda úti hlutverki sínu sem er að þjóna almenningi og gera almenningi ljóst að gera mun á staðfestum upplýsingum og öðru því efni sem flýtur um samfélagsmiðla.“

Stjórnarandstæðingurinn bætti við að Ísland væri eitt Norðurlandanna ekki inni á topp tíu lista yfir þau lönd þar sem fjölmiðlafrelsi væri talið mest. „Að sjálfsögðu mega stjórnmálamenn gagnrýna fjölmiðla fyrir skoðanir þeirra, þetta snýst ekki um það, en mér finnst hins vegar orð ráðherrans bera vott um að hann geri ekki mikinn greinarmun á því sem við köllum bara hefðbundna samfélagsmiðla og því sem við eigum að gera kröfu til að séu faglegir fjölmiðlar þó að þar séu ýmsar skoðanir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá ekki frekar ráð að leggja til einhverjar aðgerðir til að bæta stöðu fjölmiðla fremur en að þeyta þessu upp með þessum hætti?“

Ráðherrann svaraði því til að það væri rétt, til að mynda út af tæknibreytingum og breyttu rekstrarumhverfi, að gera eitthvað til að treysta betur umgjörð fjölmiðla, meðal annars með því að kanna ytra umhverfi og skattalega hlið mála. 

Rúmu ári síðar mynduðu einstaklingarnir tveir sem þarna tókust á um fjölmiðla, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir, ríkisstjórn saman ásamt þriðja aðila. Sú ríkisstjórn hefur ekkert gert til að styrkja fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, heldur þvert á móti lagt sitt þunga lóð á vogarskálarnar til að veikja það verulega. 

Fyrir vikið hafa hagsmunahóparnir sem þau þykjast ekki sjá sigrað enn eina orustuna. Jafnvel stríðið sjálft. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Radíó Efling
Radíó Efling
Radíó Efling – Heimsmet í skerðingum
Kjarninn 25. júní 2021
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari